Arsenal og Chelsea vilja Isak - Þrír orðaðir við Liverpool - Potter orðaður við Wolves og West Ham
banner
   mið 27. nóvember 2024 13:51
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Stefan mættur aftur heim: Ætlum að vinna deildina og erum líklegastir
Lengjudeildin
Kominn aftur til Keflavíkur.
Kominn aftur til Keflavíkur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Túfa tók við Val í sumar.
Túfa tók við Val í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ætlar sér upp úr Lengjudeildinni.
Ætlar sér upp úr Lengjudeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefan Alexander Ljubicic skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við uppeldisfélagið sitt, Keflavík, en hann kemur til félagsins frá Skövde í Svíþjóð þar sem hann lék á nýliðnu tímabili.

Stefan er 25 ára framherji sem fór ungur að árum út til Brighton og hefur einnig verið á mála hjá Grindavík, Riga, HK og KR á sínum ferli. Á sínum tíma lék hann 17 leiki fyrir yngri landsliðin og skoraði fjögur mörk.

Spenntastur fyrir Keflavík
„Ég fékk nokkur tilboð úti en ekkert svona sem var mjög spennandi. Ég hef verið talsvert úti og eina sem ég vildi a Íslandi var Keflavík. Ég var nýkominn heim eftir tímabilið og við kláruðum þetta eins fljótt og við gátum," segir Stefan.

Heitur á undirbúningstímabilinu og fékk símtal frá Túfa
En hvernig endaði hann hjá Skövde í vor?

„Þetta gerðist mjög fljótt einhvern veginn, var búinn að vera raða inn mörkum á undirbúningstímabilinu með Keflavík og einn daginn hringdi þetta félag í mig og svo Túfa sem var þjálfari liðsins. Ég var mjög spenntur að vinna með Túfa svo þetta var mjög auðveld ákvörðun á endanum."

Var mjög ósáttur
Srdjan Tufegdzic, Túfa, var þjálfari liðsins þegar Stefan gekk í raðir félagsins. Túfa hins vegar fór um mitt tímabil til Íslands og annar þjálfari tók við. Skövde endaði á því að falla úr sænsku B-deildinni, endaði í neðsta sæti deildarinnar.

„Tíminn hjá Skövde í heild sinni var mjög góður. Ég kynntist góðu fólki og góðum liðsfélögum, manni var heilsað á hverjum degi inni í þessum litla bæ, eitthvað sem mér fannst algjör snilld."

„Það breyttist mjög mikið þegar að Túfa fór. Ég var mér mjög ósáttur en hélt því inni í mér, stundum er fótboltinn svona. Eftir að Túfa fór spiluðum við allt öðruvísi fótbolta en við höfðum gert undir hans stjórn. Nýja nálgunin eiginlega gekk bara því miður ekki upp."


Mjög ánægður með hlutverkið
Stefan segir að Skövde hafi verið verið spáð falli en liðið hafi þó oft á tíðum sýnt að það ætti ekki að falla. Hann segir að mikill munur hafi verið á toppliðunum og liðunum neðar í töflunni. Framherjinn byrjaði átján af 26 leikjum sem hann tók þátt í, kom átta sinum inn á, var þrisvar sinnum ónotaður varamaður og einu sinni ekki í hópnum.

„Ég var mjög sáttur með mitt hlutverk, byrjaði nánast alla leiki sem er auðvitað það sem maður vill. Ég varð svo fyrir nokkrum litlum meiðslum sem settu strik í reikninn, en samt sem áður hélt mér ekki frá fótboltanum."

Mörkin komu ekki
Stefan fékk mikið að spila, hann er framherji en var ekki að skila inn mörkum. Miðað við spilaðar mínútur truflaði það ekki þjálfarana mikið, en það truflaði framherjann.

„Auðvitað truflað það mig heilmikið að ná ekki inn þessu fyrsta marki. En svo hætti ég að hugsa um það og lagði upp nokkur mörk. Ég var tölfræðilega nánast hættulegasti leikmaður liðsins. Það sem skipti mig mestu máli var að byrja sem flesta leiki, og það varð raunin."

Keflavík ætlar að vinna Lengjudeildina
Keflavík endaði í 2. sæti Lengjudeildarinnar í sumar og missti af sæti í Bestu deildinni með tapi í úrslitaleik umspilsins. Stefnan er klárlega sett upp á næsta tímabili.

„Það er 100% markmiðið. Við viljum vinna þessa deild og að mínu mati erum við líklegastir með þennan hóp. Það eru margir í hópnum búnir að spila í efstu deild, góð blanda af eldri og yngri mönnum og svo erum við auðvitað með þrjá þjálfara sem hafa allir verið úti í atvinnumennsku og hafa gert flotta hluti," segir Stefan.
Athugasemdir
banner
banner
banner