Arsenal sýnir Nkunku áhuga - Chelsea vill Gittens - Everton vill endurheimta Richarlison
   þri 29. apríl 2025 13:01
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Herði líður vel í Val og ætlar að berjast fyrir sæti sínu - „Undir mér komið"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður Ingi Gunnarsson var hér á Fótbolta.net fyrr í dag orðaður í burtu frá Val. Fótbolti.net ræddi í kjölfarið við bakvörðinn sem ætlar sér að vera áfram hjá Val og berjast fyrir sínu sæti.

Hann hefur glímt við meiðsli síðustu vikur en stefnir á endurkomu á völlinn í næsta mánuði.

„Ég hef glímt við þrálát nárameiðsli í vetur og það myndaðist beinmar út frá því. Þetta var mikið start/stopp, ég að reyna þröngva mér áfram. Beinmarið greindist fyrir svona sex vikum og ég hef verið að vinna mig til baka með t.d. sterasprautum. Það gengur þokkalega, er aðeins byrjaður að sprikla en svo kemur í ljós hvernig verður þegar ég fer í eitthvað álag," segir Hörður sem hefur vegna meiðslanna ekki verið í leikmannahópi Vals í upphafi móts.

„Ég vil koma til bak sem fyrst, en ég þarf að hugsa um að ná mér almennilega svo ég geti verið 100%. Það er svolítið erfitt fyrir mig að segja nákvæma dagsetningu en vonandi innan maímánaðar."

Hörður er meðvitaður um að það sé hörku samkeppni um stöðu í liðinu hjá Val. „Þannig á það að vera hjá öllum toppliðum. Auðvitað er samkeppni af því góða og ég hef alveg fulla trú á mér í þeirri samkeppni sem ég er í og er alveg tilbúinn að nýta mín tækifæri þegar þau koma."

„Að sjálfsögðu (ætla ég að berjast fyrir sæti mínu). Ég hef ekki orðið var við að önnur félög séu að reyna fá mig eða fengið þau skilaboð að ég megi finna mér annað lið. Ég samt geri mér alveg grein fyrir því að þessi meiðsli settu mig kannski aðeins aftar í goggunarröðina núna, en það er bara undir mér komið að vinna mig aftur inn í hópinn og ná að spila einhverja leiki,"
segir Hörður.

Þegar hann snýr til baka verður hann í samkeppni við Orra Sigurð Ómarsson, Jakob Franz Pálsson, Birki Heimisson, Sigurð Egil Lárusson og Stefán Gísla Stefánsson um bakvarðastöðurnar.

„Mér líður mjög vel í Val, var í minna hlutverki fyrri part sumars í fyrra en náði svo að vinna mig inn í liðið og fékk leiki. Ég spilaði m.a. alla Evrópuleikina. Ég var að berjast við mjög góðan leikmann, Birki Má Sævarsson, við spiluðum með bakverði þá og samkeppnin var kannski aðeins minni. En það er gott og blessað að það séu aðeins fleiri komnir til að berjast um þessar fáu stöður í vörninni," segir Hörður.
Athugasemdir