FH þurfti að gera sér að góðu að lúta í gras þegar liðið tók á móti KR í Kaplakrika í kvöld í áttundu umferð Bestu deildar karla en lokatölur urðu 3-2 fyrir KR Tapið er það fimmta hjá FH í leikjunum átta og uppskeran langt frá því sem menn vonuðust eftir í Krikanum.
Lestu um leikinn: FH 2 - 3 KR
„Nei það er hárrétt, við ætluðum okkur stærri hluti,“
Voru orð þjálfarans Ólafs Jóhannessonar um það að liðið væri langt undir þeim væntingum sem þeir gera til síns sjálfs.
Gestirnir úr Vesturbænum komust yfir snemma leiks og bættu í þegar rétt rúmur hálftími var liðinn af leiknum. Voru leikmenn FH mögulega of mikið á hælunum að mati Óla?
„Við vorum ekki frískir og vorum í basli en mér fannst nú frammistaðan hjá liðinu heilt yfir alveg þokkaleg en við fáum á okkur þrjú mörk og það er helvíti mikið og erfitt að vinna leiki þegar þú færð á þig þrjú mörk.“
Það er margt til í því að mati fréttaritara að frammistaða FH hafi heilt yfir verið með ágætum í leiknum en færanýtingin var ekki sú besta. Sláarskot, skot framhjá úr dauðafæri og svo mætti áfram telja reynast dýr.
„Eins og ég sagði var frammistaðan að mörgu leyti ágæt hjá okkur en úrslitin auðvitað skelfileg. Það er einhver smá hnútur að ergja okkur núna og upp á síðkastið sem við höfum verið að reyna finna og gengur erfiðlega að finna og það er partur af því að við fáum nokkur færi til þess að skora mark en inn vill boltinn ekki. “
Sumir hafa kastað því fram að sætið undir Óla sem þjálfara FH hljóti að vera heitt og hann valtur í sessi. Nú þegar landsleikjahlé fer í hönd og langt í næsta leik, hefur Óli áhyggjur af því að vera ekki þjálfari FH þegar liðið mætir Leikni þann 16. júní í næsta leik sínum?
„Nei ég hef engar áhyggjur af því.“
Sagði Óli en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir