Gabby Agbonlahor, fyrrum sóknarmaður Aston Villa, telur að Cristiano Ronaldo sé nokkurn veginn sama um Manchester United.
Ronaldo átti frábær ár með United frá 2003 til 2009 og er einn af betri leikmönnum í sögu félagsins. Hann sneri aftur til Man Utd í fyrra en er núna sagður vilja fara þar sem liðið er ekki í Meistaradeildinni á komandi keppnistímabili.
Ronaldo á markametið í Meistaradeildinni og hann vill ekki missa það. Hann vill því halda áfram að spila í þeirri keppni á næstu leiktíð.
Agbonlahor telur að Ronaldo sé með enga tryggð gagnvart Man Utd, og hann myndi fara til erkifjendanna í Liverpool ef það stæði honum til boða.
„Ronaldo myndi fara til Liverpool ef hann gæti það," sagði Agbonlahor á Talksport.
„Hann myndi fara hvert sem er til að spila í Meistaradeildinni, bæta við metin sín og vinna titla. Ég held að Ronaldo sé ekkert að hugsa um Man Utd."
Það eru ekki mörg félög sem eru tilbúin að taka við hinum 37 ára gamla Ronaldo og öllum pakkanum í kringum hann á þessum tímapunkti. Því gæti verið erfitt fyrir United að losa sig við hann ef félagið ákveður svo að gera það.
Athugasemdir