Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 29. ágúst 2022 15:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Þrettán ár á milli leikja - „Búinn að skora úr fleiri en ég hef varið"
Atli Jónasson.
Atli Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli ver víti í leiknum í gær.
Atli ver víti í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, og Atli fyrir nokkrum árum.
Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, og Atli fyrir nokkrum árum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Freyr Sigurðsson og Valur Gunnarsson, markvarðarþjálfari.
Viktor Freyr Sigurðsson og Valur Gunnarsson, markvarðarþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna, og Atli eru mjög góðir vinir.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna, og Atli eru mjög góðir vinir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli hefur fulla trú á því að Leiknir haldi sér uppi þrátt fyrir að liðið sé á botninum sem stendur.
Atli hefur fulla trú á því að Leiknir haldi sér uppi þrátt fyrir að liðið sé á botninum sem stendur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Jónasson lék í gær sinn annan leik í efstu deild og þann fyrsta í 13 ár er hann byrjaði í markinu hjá Leikni í 4-0 tapi gegn Breiðabliki í Bestu deildinni.

Atli kom nokkuð óvænt inn, en það var ekki óvænt fyrir hann sjálfan. Hann var tilbúinn í slaginn.

„Ég er búinn að æfa með Leikni síðan í mars. Ég er búinn að vera varamarkvörður í sumar. Ef það var ekki ég, þá var það enginn annar," segir Atli.

Viktor Freyr Sigurðsson, aðalmarkvörður Leiknis, var tæpur fyrir leikinn. Hann fór í gegnum upphitun en gat ekki spilað.

„Viktor hefur verið smá tæpur síðan eftir leikinn gegn KR. Hann var tæpur fyrir leikinn í gær og ég vissi það. Svo var hann prófaður í upphitun og þá var alveg ljóst að hann yrði ekki með. Þetta var kannski ekki eins óvænt fyrir mig og það var fyrir ykkur."

„Ég var alveg 100 prósent klár, ég var búinn að undirbúa mig alla vikuna. Ég er búinn að æfa eins mikið og ég get. Ég er faðir og í annarri vinnu, en ég æfði eins vel og ég gat í vikunni og var alltaf klár," segir Atli.

Fáránlega gaman að spila þennan leik
Leikurinn var erfiður fyrir Leiknismenn gegn besta liði deildarinnar, en Atli segir að upplifunin af leiknum hafi verið skemmtileg. Þetta var hans fyrsti leikur í efstu deild síðan 2009.

„Það var fáránlega gaman að spila þennan leik sko. Ég hugsaði ekkert svona langt til baka í augnablikinu. Fótbolti er alltaf bara fótbolti. Það var mjög gaman að spila þennan leik, það var mikið af fólki á vellinum og gaman að spila fyrir Leikni. Það er reyndar ekki gaman að spila á móti þessu Breiðabliks liði," segir hann.

Hans fyrsti leikur í efstu deild var með KR gegn Val í leik sem tapaðist 4-3. Hann man enn eftir þeim leik.

„Það var náttúrulega KR - Valur og ég held að það sé minn slakasti leikur á ferlinum, 4-3 tap. Þetta var aðeins öðruvísi núna - 21 árs þá og 34 ára núna. Það var meira stress þá."

Var búinn að lesa Höskuld eins og opna bók
Breiðablik fékk vítaspyrnu í leiknum og fór Höskuldur Gunnlaugsson á punktinn en Atli gerði sér lítið fyrir og varði frá honum.

„Þegar hann setti boltann á punktinn þá vissi ég strax hvert hann myndi skjóta," sagði Atli. „Hann gaf það til kynna strax. Ég hef ekki gert þetta mikið, þveröfugt. Ég er búinn að skora úr fleiri en ég er búinn að verja. Ég sá það strax hvert hann myndi skjóta. Dóri Árna setur væntanlega einhvern annan á punktinn næst," sagði markvörðurinn léttur.

Sjálfsagt þegar besti vinur manns biður um greiða
Leikurinn í gær var fyrsti leikur Atla frá 2020 þegar hann lék með KFG. Síðustu árin hefur hann einbeitt sér að þjálfun í yngri flokkunum.

„Ég var í rauninni hættur. Ég er búinn að vera að þjálfa í yngri flokkunum í einhver 20 ár. Þar liggur minn metnaður. Ég hef reynt að hætta endalaust."

Alltaf er það eitthvað sem dregur hann aftur að fótboltanum, en í þetta skiptið var það Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna.

„Í þetta skiptið er það þannig að ég og Siggi Höskulds erum mjög, mjög góðir vinir. Hann ákvað að treysta Viktori í markið hjá sér. Mér finnst það frábær ákvörðun því hann er mjög efnilegur markvörður. Hann langaði að hafa einhvern eldri og reyndari með honum til að styðja við hann. Hann hafði samband við mig. Það er náttúrulega bara sjálfsagt þegar besti vinur manns biður mann um eitthvað svoleiðis."

„Þetta var aldrei spurning. Við erum það góðir vinir - ég og Siggi - að það var minnsta mál.

Atli er einnig að þjálfa í yngri flokkum HK. „Það er örugglega það skemmtilegasta sem ég geri," segir hann en er það skemmtilegra en að spila?

„Ef þú hefðir hringt í mig í fyrradag þá hefði ég klárlega sagt já, en það var helvíti gaman í gær."

Viktor hefur allt
Í vetur var nokkuð mikið talað um það að Viktor Freyr væri veiki bletturinn í liði Leiknis, en svo hefur alls ekki verið. Hann er á fyrsta tímabili sínu í efstu deild og hefur leyst það verkefni gríðarlega vel.

„Það er frábært að vinna með Viktori. Hann er góður í öllum þáttum sem markvörður þarf að vera með; hann er stór, með sprengju og góður í fótunum. Það er ógeðslega gaman að vinna með honum," segir Atli.

„Valur Gunnarsson (markvarðarþjálfari) á hrós skilið fyrir það líka," bætir hann við.

Var einn efnilegasti markvörður landsins
Atli var mjög efnilegur markvörður en hann spilaði með öllum yngri landsliðum Íslands. Hann spilaði einungis einn leik í efstu deild með KR en hefur síðan leikið marga leiki í neðri deildum.

„Ég hef aldrei meiðst. Ef þú vilt fara eitthvað djúpt í þetta þá var þetta hausinn," segir Atli.

„Svo vil ég meina að ég hafi verið rangur maður, á röngum stað, á röngum tíma. Ég var í KR á eftir besta markverði landsins. Það var alltaf pressa þar. Ef ég hefði verið í einhverju öðru félagi en KR þá hefði ég verið byrjaður að spila 17 ára. Í hverju einasta félagi. Ég er KR-ingur þannig að ég var alltaf í KR. Svo fór maður á lán hingað og þangað. Þá kannski losnar upp úr þessu, ásamt því að maður var veikur í hausnum."

Atli fór í hlaðvarpsþáttinn Miðjuna fyrir tveimur árum og talaði þar opinskátt um sitt líf sem hefur ekki alltaf verið dans á rósum.

Við höldum okkur alltaf uppi
Leiknir er sem stendur á botni Bestu deildarinnar en það er engin uppgjöf í Breiðhyltingum - langt því frá.

„Ég held að Siggi orði þetta ágætlega í viðtölum sem hann fer í. Það er þráhyggja hjá okkur að halda okkur uppi. Það er ekkert óeðlilegt að mínu mati að Leiknir sé í þessari stöðu. Staðan var kannski óeðlilegri í fyrra þegar þeir voru öruggir eftir tíu, ellefu umferðir. Við vorum undirbúnir fyrir það að lenda í þessari baráttu. Það gefst enginn upp hérna. Við höldum okkur alltaf uppi," segir Atli.

„Ég er í hóp í næsta leik. Við þurfum bara að sjá hvernig Viktor verður og hvort Siggi hafi fundist ég það góður að ég eigi að vera áfram í markinu. Ég er tilbúinn."

Að lokum sagði Atli: „Ég vona að KR verði í efri hlutanum og að Leiknir haldi sér uppi."

Sjá einnig:
Atli í markinu hjá Leikni - Þrettán ár frá síðasta leik í efstu deild
Miðjan - Atli Jónasson um áföll, agabrot og fleira


Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner