
Beitir Ólafsson var varamarkvörður HK í úrslitaleik Lengjudeildarinnar um helgina. Ástæða þess er að Stefán Stefánsson, sem hefur verið varamarkvörður HK, skar sig á fingri er hann var við störf á djús og samlokustað fyrr í mánuðinum.
Beitir kom ekki við sögu í úrslitaleiknum en Fótbolti.net ræddi engu að síður við Sandor Matus, markmannsþjálfara HK, vegna meiðsla Stefáns og endurkomu Beitis í leikmannahóp liðsins.
„Stebbi skar sig á litla fingrinum í vinnunni og þurfti að fara strax í aðgerð. Þetta fór svo illa, þetta var ekki stór skurður en illa staðsettur og hann hefur bara verið frá vegna þess.“
„Ef þú ert að vinna á veitingastöðum með hnífa þá áttu í hættu á að þetta gerist. En þetta er mjög skrýtið og kom á mjög slæmum tímapunkti.“
Beitir í toppstandi
Beitir lék síðast með Gróttu árið 2023, en hann fékk félagaskipti til HK á síðasta tímabili vegna þáverandi meiðslakrísu HK. Beitir er uppalinn HK-ingur og lék með liðinu um árabil.
„Við áttum Beiti skráðan hjá okkur. Hann var besti kosturinn. Beitir er í toppstandi þrátt fyrir að hafa ekki æft. Við treystum á reynslu hans frekar en yngri markmenn. Það hefði getað gert illt verra fyrir unga markmenn ef þeir koma inn og gera stór mistök í svona leik.“
„Næsta skref hefði verið 2. flokks markmaður á yngsta árinu. Við vorum búnir að lána A-liðs markmanninn í 2. flokki til Ýmis og Arnar Freyr (Ólafsson) fór til KR fyrr á tímabilinu,“ segir Sandor að lokum.