Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   mið 29. nóvember 2023 10:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Leikmaður Breiðabliks og U21 landsliðsins spreytir sig á ritvellinum
Höfundarnir með bókina.
Höfundarnir með bókina.
Mynd: Árni Tofason
Tilvalin í jólapakann.
Tilvalin í jólapakann.
Mynd: Árni Torfason
Þetta voru sóknarsinnuð skrif
Þetta voru sóknarsinnuð skrif
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyþór Wöhler, leikmaður Breiðabliks, U21 landsliðsins og þúsundþjalasmiður, hefur ekki setið auðum höndum í ár. Hann hefur gefið út sína fyrstu bók og ber hún heitið Frasabókin. Eyþór skrifaði bókina með félaga sínum Emil Erni Aðalsteinssyni og vonast rithöfundarnir ungu að bókin reynist skemmtileg og hnyttin en jafnframt fræðandi. Frasabókin er samansafn rúmlega þúsund frasa, þar má finna ýmis snjallyrði, orðtök og slanguryrði sem geta glatt alla.

„Markmið okkar með útgáfu bókarinnar er fyrst og fremst að gleðja okkur og aðra en vonandi í leiðinni að brúa ákveðið kynslóðabil og fræða landsmenn,“ segir Eyþór í samtali við blaðamann Fótbolti.net.

Eyþór lék með HK fyrri hluta tímabils en var síðar kallaður til baka úr láni til Breiðabliks í sumarglugganum. Hann telur að það hefur verið ágætt að dreifa huganum endrum og eins utan vallar.

„Líkt og á knattspyrnuvellinum þá er keppnisskapið ekkert minna á ritvellinum, við gáfum lítið eftir og söfnuðum yfir þúsund frösum og snjallyrðum. Þetta voru sóknarsinnuð skrif,“ segir Eyþór sposkur á svip.

„Það eru einhverjir frasar og orðtök í bókinni sem ég hlera frá liðsfélögunum í Breiðablik og U21 landsliðinu, þessir drengir eru oftar en ekki með puttann á púlsinum og tala nýmóðins íslensku,“ bætir framherjinn við.

Talsverður munur milli kynslóða
„Við Emil höfum tekið eftir hversu miklu getur munað í málfari og orðalagi milli kynslóða. Það er auðvitað ærið verkefni að finna út hvar munurinn liggur og hvernig hann brýst fram en með útgáfu bókarinnar náum við að skýra út fjölmarga nýja frasa og snjallyrði. Þó að íslenskan sé nær mállýskulaus þá líður okkur stundum þannig að það séu mismunandi mállýskur, munurinn á því hvernig við tölum samanborið við eldri kynslóðir er talsverður.“

Rithöfundarnir telja að bókin komi út á góðum tíma þar sem dvínandi málkunnátta ungs fólks hefur verið í brennidepli síðastliðin ár. Þeir vonast til að geta hjálpað ungmennum að meta mikilvægi íslenskunnar.

Tungumálið þróast og breytist líkt og knattspyrnan
„Tungumálið þróast og breytist með tímanum, til dæmis líkt og fótboltinn, reglulega eru kynntar nýjar reglur og breytingar, margar vel heppnaðar og sumar umdeildar. Við getum tekið dæmi frá upphafi tíunda áratugar síðustu aldar þegar markmenn máttu ekki taka boltann upp eftir sendingu frá samherja og svo til dæmis sjónvarpsdómgæslan síðar meir. Við sjáum það í tungumálinu okkar að það koma reglulega nýyrði, tökuorð og frasar sem ekki allir eru sammála með til að byrja með en með tíð og tíma verður þetta eðlislægra og breiðari sátt með notkun ný- og snjallyrða.“

Ofarlega á metsölulistum
Það er ekki langt síðan að bókin kom út en þeir segjast bókina hafa fengið góðar móttökur.

„Það hefur verið virkilega gaman að sjá að bókin er ofarlega á metsölulistum forlaganna og greinilega áhugi hjá landsmönnum að kynna sér mismunandi hliðar tungumálsins. Eigum við ekki að segja að þetta sé jólagjöfin í ár ásamt ferðagufubaðinu,“ segir Eyþór að lokum.

Sögur útgáfa gefur út Frasabókina og er hægt að nálgast hana í flestum betri verslunum landsins og inn á vef Sögur útgáfu, www.sogurutgafa.is.
Athugasemdir
banner
banner
banner