Daniel Osafo-Badu hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Vestra en hann hefur búið á Íslandi í rúman áratug eftir að hafa leikið fyrst um sinn með Magna í Grenivík árið 2010.
Daniel spilaði fyrir Magna og lék einn leik fyrir Njarðvík en spilaði svo fyrir BÍ/Bolungarvík, sem varð síðan að Vestra.
Daniel var lykilmaður í liði Vestra í 2. deildinni og alla leið upp í Lengjudeildina, þar til hann tók við sem aðstoðarþjálfari eftir að hafa þjálfað yngriflokkana samhliða ferli sínum sem leikmaður.
Daniel er 37 ára gamall og segir ákvörðunina að yfirgefa Vestra ekki hafa verið auðvelda.
„Hér hef ég átt heima í mörg ógleymanleg ár en núna finnst mér vera kominn tími til að draga mig til hlés," segir Daniel meðal annars í kveðju sinni til Vestra og Ísfirðinga.
„Ég spilaði minn fyrsta leik á Ísafirði fyrir meira en áratugi síðan og á þessum tíma hefur Vestri orðið svo mikið meira en bara fótboltafélag - Vestri hefur orðið að fjölskyldu. Þetta fótboltafélag er hjartað í bænum og ég er ótrúlega heppinn og stoltur að hafa fengið að vera partur af því svona lengi.
Takk fyrir, og áfram Vestri."
Athugasemdir