Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   mið 30. apríl 2025 08:30
Innkastið
Finnst vanta kjölfestu í Stjörnuliðið - „Næst engin samfella“
Enginn á fast sæti í Stjörnuliðinu.
Enginn á fast sæti í Stjörnuliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar er vanur því að hræra talsvert mikið í byrjunarliði sínu milli leikja en fyrir tímabilið sagðist hann vera með „rúmlega 20 byrjunarliðsmenn“.

Sitt sýnist hverjum um þessar pælingar Jökuls en fyrir leikinn gegn ÍBV, sem tapaðist 2-3, gerði hann fjórar breytingar.

„Samúel Kári, Benedikt Waren og Andri Rúnar allir á bekknum. Það er eiginlega enginn í liðinu sem á fast sæti í byrjunarliðinu. Mér finnst vanta einhvern veginn kjölfestuna í liðið," segir Elvar Geir í Innkastinu þar sem fjórða umferðin var gerð upp. Allir þrír leikmennirnir sem nefndir eru voru fengnir fyrir tímabilið.

„Ég er nánast farinn að kalla eftir einhverju einkenni. Ég get ekki ímyndað mér annað en að svona mikill pælari eins og Jökull Elísabetarson sé með pælingar um hvað þeir vilji gera. En hvernig framfylgir þú þeim með fjórar breytingar í hverjum leik og menn stundum ekki að spila sömu stöðuna. Það getur ekki náðst einhver samfella í þetta því þá væru fleiri þjálfarar að gera breytingar á öllu," segir Tómas Þór.

„Eins og með Samúel Kára, þar er sóttur leikmaður sem hefur spilað landsleiki og var atvinnumaður til fjölda ára. Maður bjóst við að hann yrði fastur byrjunarliðsmaður, fastur punktur í liðinu," segir Elvar.

„Jökull lítur ekki á þetta eins og hann sé með eitthvað byrjunarlið og svo varamenn. Á hverju á að byggja ef það eru aldrei sömu menn inná? Hvernig myndast tenging milli leikmanna? Ég hef stundum sagt að ef þú til dæmis róterar markvörðum og ætlar að vera með tvo aðalmarkmenn þá ertu í raun með tvo varamarkmenn. Þú verður að byggja upp spilið og það virðist ekki vera að ganga núna. Það er stundum eins og Jökull sé að ofhugsa hlutina," segir Valur Gunnarsson.

Í Innkastinu var ýmislegt fleira tengt Stjörnunni til umræðu og meðal annars að Emil Atlason væri ekki búinn að ná að koma sér af stað.

„Hann hefur valdið vonbrigðum í byrjun. Eðlilega var talað um hann sem líklegastan til að verða markahæstur en hann er ekki kominn með mark. Andri Rúnar fer á bekkinn og mér finnst Emil aftur virka þungur. Það er ekkert að gerast þar og það er áhyggjuefni," segir Valur.
Innkastið - Enginn skilaréttur!
Athugasemdir
banner
banner