Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
banner
   fim 30. maí 2024 20:12
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Stöð 2 Sport 
Óskar Hrafn: Mín tilfinning að hann væri að vinna gegn mér
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sancheev Manoharan.
Sancheev Manoharan.
Mynd: Haugesund
Óskar Hrafn Þorvaldsson er sérfræðingur hjá Stöð 2 Sport á leik Breiðabliks og Víkings. Í upphafi útsendingar spurði Ríkharð Óskar Guðnason hann að því af hverju hann hefði hætt hjá Haugesund í Noregi?

„Stutta svarið er það að mér fannst ekki allir vera að ganga í takt hjá félaginu. Mér fannst ég vera að feta annan veg heldur en margir aðrir þarna og á endanum komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri best fyrir mig að fara," sagði Óskar.

„Þú heldur á einhverju sverði og fellur á það eða heldur á því. Ég hafði áhuga á að vera með mitt sverð en ekki það sem einhver setti í höndina á mér."

Talað hefur verið um að valdabarátta hafi átt sér stað og Óskar ekki viljað vinna með aðstoðarþjálfaranum Sancheev Manoharan, sem nú hefur tekið við liðinu.

„Fannst þér hann vera að vinna gegn þér?" spurði Ríkharð hreint út og Óskar svaraði:

„Já það var mín tilfinning. Ef þú myndir spyrja hann þá myndi hann segja eitthvað annað. Þetta er tilfinning á móti tilfinningu. Menn verða bara að bera virðingu fyrir því hvernig mér leið og hvaða tilfinningu ég hafði gagnvart þessu verkefni á þeim tímapunkti sem ég tók þessa ákvörðun. Það er ekkert meira um það að segja."

Þá var Óskar spurður að því hvort hugur hans væri á að halda áfram í þjálfun eða fara í eitthvað annað?

„Hugurinn er alls staðar og hvergi. Ég er ekki í þeirri aðstöðu að ætla að útiloka eitt né neitt. Það er mjög gaman að þjálfa fótboltalið og frábært að starfa í fótbolta. Það er auðvitað draumurinn að hafa það að atvinnu," svaraði Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner