banner
   fim 30. júlí 2020 19:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jói Berg horfir fram veginn - Vonandi tilheyra meiðslin fortíðinni
Jurgen Klopp og Jóhann Berg.
Jurgen Klopp og Jóhann Berg.
Mynd: Getty Images
Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson átti mjög erfitt tímabil með Burnley. Ensku úrvalsdeildinni lauk í byrjun þessarar viku og Burnley átti gott tímabil, en vegna meiðsla gat Jóhann Berg lítið beitt sér.

„Þegar þú lendir í slæmum meiðslum þá veistu að það eru vanalega fimm eða sex mánuðir í að þú komir til baka, eða eitthvað álíka. Þú veist tímalínuna. Hjá mér hafa þetta verið mikið af vöðvameiðslum og hnjask hér og þar. Ég kem til baka og meiði mig aftur. Það hefur verið það erfiða," segir Jóhann Berg í samtali við heimasíðu Burnley.

Jóhann Berg vonast til þess að meiðslin séu núna að baki. Það er stutt í næsta tímabil sem hefst um miðjan september.

„Vonandi tilheyrir þetta fortíðinni. Ég hef lagt mikið á mig að laga það sem hefur verið að angra mig og vonandi er þetta komið gott núna," segir landsliðsmaðurinn sem hefur verið að æfa vel með sjúkraþjálfurum Burnley.

„Ég vil bara njóta fótboltans. Ég er 29 ára og verð þrítugur í október. Ég vil vera á vellinum eins mikið og ég get og bara njóta þess að vera í ensku úrvalsdeildinni sem er besta deild í heimi. Ég vil bara njóta þess í nokkur ár í viðbót."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner