banner
   fös 30. júlí 2021 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gefur skít í umfjöllun Dr. Football um Þrótt - „Hafa ekki hundsvit á hvað er í gangi"
Lengjudeildin
Jens Elvar Sævarsson
Jens Elvar Sævarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Jens Elvar Sævarsson, aðstoðarþjálfari Þróttar, ræddi við Fótbolta.net í dag. Þróttur vann Selfoss í gær, 0-3 á útivelli og var Jens til viðtals þar sem hann stýrði liðinu ásamt Sam Hewson í fjarveru Guðlaugs Baldurssonar sem er með covid-19 veiruna og í einangrun.

Sjá einnig:
Þurftu að stíga upp þegar þjálfarinn greindist með veiruna

Jens var vægast sagt ekki sáttur við umfjöllun hlaðvarpsþáttarins Dr. Football um Þrótt í sumar. Þróttur og það sem hefur verið í gangi í Laugardalnum hefur verið kallað 'Project nothing' í þættinum.

„Við höfum gefið öllum liðum leik kannski fyrir utan frammistöðuna okkar á Akureyri. Þá höfum við, að okkar mati, gefið öllum liðum alvöru leik þrátt fyrir að svokallaðir sparkspekingar vilja meina að séum 'Project nothing'," sagði Jens Elvar.

„Ég vil senda pillu á það, þeir hafa ekki hundsvit á hvað er í gangi í Laugardalnum og hafa engan rétt á því að segja að það sé 'Project nothing'. Ég efast um að þeir hafi séð einn leik það sem af er ári hjá Þrótti."

Þú ert á því að það sé talsvert meira en ekkert að gerast í Laugardalnum?

„Ég vil benda á það, þó að menn hafi kannski sama álit á okkar liði og við höfum, að nánast allir í byrjunarliði 2. flokks hafa fengið rullu í okkar liði í sumar. 'Project nothing', ég gef skít í það. Við ætluðum að spila ungum leikmönnum í kringum hrygginn í liðinu en hryggurinn er meiddur. Ég skil ekki hvaðan þeir fá þetta 'Project nothing'."

Þú ert væntanlega að tala um félagana í Dr. Football og kannski Kristján Óla Sigurðsson sérstaklega?

„Já. Kristján Óli er góður drengur og ég hef gaman af honum. En ef menn ætla kalla okkur 'Project nothing' þá verða þeir að hafa eitthvað fyrir sér í því og vita hvað er í gangi. Þeir hafa ekkert vit á því og hafa örugglega ekki séð annað af okkur en í Lengjudeildarmörkunum," sagði Jens.
Athugasemdir
banner
banner
banner