900. deildarleikur stjórans
David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham United, er ánægður með byrjunina á tímabilinu en næsti leikur liðsins er á heimavelli gegn botnliði Sheffield United í dag.
Hamrarnir unnu gegn Lincoln City í deildabikarnum í vikunni en liðið hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni, gegn stórveldum Manchester City og Liverpool. Hamrarnir eiga tíu stig eftir sex fyrstu umferðirnar á deildartímabilinu og unnu þeir í fyrstu umferð í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í síðustu viku.
Moyes var spurður út í gengi liðsins á upphafi tímabils og þá sérstaklega út í tölfræði liðsins þegar kemur að því að halda boltanum. Hvernig stendur á því að Hömrunum hefur gengið vel á upphafi tímabils þrátt fyrir að vera með boltann undir 40% af tímanum að meðaltali?
„Þetta eru tölur sem skipta engu máli fyrir mig. Ég er ekki að skoða tölfræði yfir hversu mikið við héldum boltanum, ég er að skoða aðra tölfræði. Ég er að telja hversu marga sigra við erum með og hversu mörg mörk við skorum. Ég er ekki að telja hversu mikið við höldum boltanum," svaraði Moyes brattur, sem var svo spurður út í andstæðingana sína frá Sheffield sem töpuðu 0-8 gegn Newcastle United um síðustu helgi.
„Þetta voru ömurleg úrslit fyrir þá í síðustu viku en þetta er sterkt lið með mikinn karakter, það er ekki af ástæðulausu sem þeir komust upp í ensku úrvalsdeildina. Þeir eru með frábæran stjóra sem gerði virkilega vel að koma liðinu upp um deild. Ég lít á þetta sem virkilega erfiðan leik, þessi úrslit sem við sáum um síðustu helgi eru ekki að fara að endurtaka sig. Við erum óheppnir að vera næsta lið sem mætir Sheffield eftir þetta tap.
„Við verðum að vera uppá okkar besta ef við ætlum að vinna þennan leik. Við þurfum að verjast vel, taka réttar ákvarðanir á boltanum og klára svo færin okkar. Eitt það mikilvægasta verður að reyna að halda hreinu, það getur spilað stóran þátt í árangri okkar á tímabilinu."
Þetta verður deildarleikur númer 900 fyrir Moyes, sem segir að ómælanleg ást sín á fótbolta hafi orðið til þess að hann hefur haldið sér í starfi sem knattspyrnustjóri svona lengi. Moyes er 60 ára gamall og hefur starfað sem knattspyrnustjóri síðastliðin 25 ár. Þar áður lék hann meðal annars fyrir Preston North End, Celtic og Bristol City á ferli sínum sem leikmaður.
Athugasemdir