Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 30. október 2020 18:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Siggi Raggi: Við erum stoltir af Keflavíkurliðinu
Lengjudeildin
Eysteinn Húni Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfarar Keflavíkur.
Eysteinn Húni Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfarar Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Raggi Óla
Keflavík er komið upp í Pepsi Max-deildina á nýjan leik en liðið endaði í efsta sæti Lengjudeildarinnar á meðalfjölda stiga.

KSÍ tilkynnti í dag að keppni verður ekki haldið áfram á Íslandsmótinu vegna kórónuveirunnar. Keflavík var með bestan árangur í Lengjudeildinni er miðað við meðalfjölda stiga og spilar því í efstu deild næsta sumar.

„Þetta er bara frábær tilfinning," segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, annar þjálfara Keflavíkur, við Fótbolta.net.

„Við erum stoltir af Keflavíkurliðinu og okkar frammistöðu í sumar. Við áttum toppsætið skilið, við unnum þessa deild verðskuldað að mínu mati. Það hefði verið skemmtilegast að vinna deildina með því að spila alla leikina, það hefði gefið okkur tækifæri til að bæta markametið í þessari deild og ég veit að Joey Gibbs vildi slá markametið líka en þau markmið voru aukaatriði, aðalmálið var að vinna deildina."

„Okkur gekk vel allt undirbúningstímabilið, líka á móti liðunum í Pepsi Max-deildinni. Við vissum að við værum með efnilegt lið en við spiluðum í raun allt undirbúningstímabilið samt með kantmenn í senterastöðunum. Við eyddum miklum tíma í að finna réttu leikmennina sem myndu styrkja okkur á réttum stöðum en sumarið hefur verið sigur liðsheildarinnar."

„Við sögðum oft við strákana í sumar að það yrði besta "LIÐIÐ" sem myndi vinna deildina. Við misstum menn í meiðsli, fyrirliðann okkar sem var valinn bestur hjá okkur í fyrra, en það kom alltaf maður í manns stað."

„Okkur tókst að spila skemmtilegan sóknarfótbolta, óhræddir við að þora að gera mistök - mistök eru til að læra af þeim. Bæði Leiknir og Fram stóðu sig mjög vel og gáfu okkur hörku keppni, það eru mörg fín lið í þessari deild. Það er mjög sætt að ná markmiðinu að vinna deildina, við höfðum alltaf trú á verkefninu."

Hvað tekur við núna hjá Keflvíkingum?

„Núna eiga allir skilið frí eftir langt og strangt keppnistímabil og svo komum við saman á næsta undirbúningstímabli og höldum áfram að bæta okkur á hverri æfingu. Það er okkar allra að vaxa með verkefninu og við erum að fara að reyna okkur á móti bestu leikmönnum landsins á næsta ári. Okkur hlakkar mikið til verkefnisins og ætlum að standa okkur þar og halda áfram að vaxa, bæta okkur og læra fagið okkar, og gera alla í Reykjanesbæ stolta af liðinu sínu," segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Athugasemdir
banner
banner