Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 30. október 2024 13:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Vonar að tímabilið verði lengt og undirbúningstímabilið stytt - „Ég fílaði þetta í botn"
Kiddi er 34 ára vinstri bakvörður sem uppalinn er hjá Breiðabliki.
Kiddi er 34 ára vinstri bakvörður sem uppalinn er hjá Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann varð Íslandsmeistari í þriðja sinn á ferlinum á sunnudag.
Hann varð Íslandsmeistari í þriðja sinn á ferlinum á sunnudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik á undirbúningstímabilinu.
Í leik á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kristinn Jónsson ræddi við Fótbolta.net í gær og var hann spurður út í stutt og snarpt undirbúningstímabil Breiðabliks fyrir Íslandsmótið 2024. Flestir leikmenn liðsins byrjuðu að æfa í lok janúar eftir að hafa tekið þátt í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar sem lauk ekki fyrr en um miðjan desember.

Kiddi samdi við uppeldisfélagið síðasta vetur og varð Íslandsmeistari með liðinu á sunnudag.

„Ég fílaði þetta stutta undirbúningstímabil í botn og var alltaf að vonast til þess, eins og ég hef sagt áður, að með lengingu Íslandsmótsins þá væru menn að horfa til þess að stytta þetta undirbúningstímabil. Það eru margar skoðanir á því en menn virðast hallast meira að því að reyna þjappa þessu meira saman til þess að við náum nú örugglega að vera 4-5 mánuði á undirbúningstímabili," sagði Kiddi sem er ekki hrifinn af þeirri pælingu.

„Það væri geggjað að reyna færast nær Skandinavíu varðandi uppsetninguna á mótinu, en það þýðir að við þurfum að vera með gervigrasvelli og helst reyna spila út nóvember."

„Þá gætu verið 4-6 vikur i pásu, byrjað aftur í janúar og tveimur og hálfum eða þremur mánuðum seinna væri mótið byrjað aftur. Það er mjög erfitt að ætla að stytta undirbúningstímabilið ef mótið klárast í lok október, það gengur eiginlega ekki upp nema menn fái einhver heimaverkefni í tvo mánuði eða svo."

„Ég er aðeins vanari því að hafa meiri undirbúningsvinnu varðandi lyftingar og hlaup. Ég var á allt öðrum stað heldur en Blikaliðið þegar þeir byrjuðu aftur. Ég var búinn að vera í pásu í tvo mánuði þar sem ég var bara að hlaupa og lyfta sjálfur. Það kannski blekkir með mig persónulega. En mér fannst menn mjög ferskir komandi inn í undirbúningstímabilið og gott fyrir menn að vita að þetta yrði bara snarpt og stutt. Menn þurftu að passa sig extra vel að togna ekki eða meiðast og missa þá af stórum hluta undirbúningsins. Þetta er mjög 'tricky' hvernig þú ætlar að setja þetta upp."


Ef þú yrðir spurður núna hvort að Blikar ættu að taka aftur stutt undirbúningstímabil, hvað myndir þú segja?

„Ég myndi segja já, en þá þyrfti mótið að byrja aðeins fyrr, það myndi ekki ganga upp ef mótið er að byrja í byrjun apríl."

„Ef pælingin væri að hafa hreinlega frí langt fram í janúar frá því að mótið kláraðist núna og mótið byrjar svo í apríl, ég sæi það ekki virka. Mótið þyrfti að byrja aðeins fyrr eða enda aðeins seinna."

„Þetta þarf að vera rökrétt, það væri of langur tími núna að fara í tveggja mánaða frí frá fótbolta ef uppsetningin á mótinu yrði eins á næsta tímabili, spilað frá byrjun apríl og út október. Fótboltahreyfingar eru allt öðruvísi hreyfingar en hlaup og að fara í ræktina. Menn þurfa að halda sér við upp á bakið og nárann. En ég held þetta eigi eftir að þróast í betri átt og það verði reynt að stytta undirbúningstímabilið."

„Fótboltahreyfingin hefur kannski ekki verið þekkt fyrir að gera hlutina að fyrra bragði, meira verið að vinna og breyta hlutum eftir að hlutir hafa gerst. Ég á von á því að mótið verði aðeins lengt og á móti verði undirbúningstímabilið aðeins styttra,"
sagði Kiddi.

Víkingur er á þessu tímabili í svipuðum pakka og Breiðablik var í fyrra. Liðið er að spila í Sambandsdeildinni fram yfir miðjan desember og enn lengur ef vel gengur.
Athugasemdir
banner
banner