Eins og Fótbolti.net greindi fyrst frá þá er Ragnar Sigurðsson nýr aðstoðarþjálfari Fram í Bestu deild karla.
Ragnar er 36 ára og lagði skóna á hilluna í fyrra. Hann lék 97 landsleiki með Íslandi og spilaði bæði á EM og HM.
Á atvinnumannaferli sínum varð hann meðal annars danskur og sænskur meistari auk þess að spila í Rússlandi og á Englandi.
Í samtali við Fréttablaðið segist Ragnar sjálfur hafa haft samband við Jón Sveinsson, þjálfara Fram, um starfið en þeir unnu saman hjá Fylki fyrir nokkrum árum síðan þegar Ragnar var að koma þar upp sem leikmaður.
„Ég hringdi bara sjálfur í Jón og spurði hann að því hvort hann vantaði ekki aðstoðarmann. Hann ætlaði að tala við stjórnina og þegar það var komið á hreint þá tók þetta ekki langan tíma. Jón þjálfaði mig í Fylki og ég taldi að hann væri akkúrat sú týpa sem ég myndi vilja vinna með þegar ég er að taka mín fyrstu skref. Ég hef góða reynslu af honum," segir Ragnar.
Hann hefur talað um að hafa ekki sérstakan áhuga á því að fara í þjálfun en hann fann svo einhvern neista og ákvað að kýla á þetta. Hann er að taka þjálfaragráðurnar hjá KSÍ.
„Ég vildi helst ekki sjá fótbolta eftir að ég tók þá ákvörðun að hætta. Svo þegar aðeins er liðið frá þessu þá finnur maður aftur hvar ástríðan liggur. Ég var aldrei að loka á neitt, þetta er það sem maður kann. Það er gaman að gera eitthvað sem maður er góður í og getað miðlað af þeirri reynslu sem ferillinn gaf mér. Ég vissi alltaf að áhuginn fyrir fótboltanum kæmi aftur en þetta gerðist kannski aðeins fyrr en ég gerði ráð fyrir," segir Ragnar.
Fram hafnaði í níunda sæti Bestu deildarinnar í sumar.
Athugasemdir