„Mér fannst þetta skemmtilegur leikur. Tvö góð lið og heilt yfir fannst mér leikurinn jafn. Ákveðnir hlutir sem við díluðum ekki vel við og eitthvað af mörkunum þeirra kom upp úr því. Það er bara fínt, fínn tímapunktur fyrir okkur að laga það. Bara góður leikur held ég.“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 4-2 tap í úrslitaleik Þungavigtabikarsins gegn Breiðabliki.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 4 Breiðablik
Hvernig er staðan á leikmannahópi Stjörnunnar í dag?
„Staðan á hópnum er frábær og við erum á góðum stað. Við erum að keyra mjög þungt og höldum því bara áfram. Staðan er góð og það er mikill og góður kraftur í hópnum.“
Kjartan Már var ónotaður varamaður fyrir Stjörnunna í dag, verður hann leikmaður Stjörnunnar næsta sumar?
„Það getur farið á hvaða veg sem er. Það er mikill áhugi á honum. Svo getur hann byrjað mótið með okkur og þá sjáum við hvað gerist. Hann var aðeins slappur í dag, sjáum hvað gerist.“
Samúel Kári fór meiddur af velli í dag en hvernig er staðan á honum?
„Það er verið að skoða hann. Hann var aðeins dasaður og slappur, það er verið að kíkja á hann. Hann hefur komið mjög vel inn í þennan hóp. Sterkur og öflugur karakter, faglegur og er frábær viðbót að öllu leyti, karakter og leikmaður.“
Jökull segir að þessi keppni gefi hefðbundnum æfingaleikjum meira vægi og er hæstánægður með þessa keppni.
„Mér finnst þetta stórkostlegt. Mjög gott mót og góðir leikir. Það er aðeins öðruvísi að hafa æfingaleikina sem mót, það gefur þessu aðeins meira, mjög ánægður með þetta.“
Viðtalið við Jökul má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.