Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 31. júlí 2020 08:00
Elvar Geir Magnússon
Stuðningsmenn Newcastle ringlaðir og sárir
Krónprins Sádi-Arabíu, Mohamed Bin Salman, er hættur við að kaupa Newcastle.
Krónprins Sádi-Arabíu, Mohamed Bin Salman, er hættur við að kaupa Newcastle.
Mynd: Getty Images
St James' Park, heimavöllur Newcastle.
St James' Park, heimavöllur Newcastle.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Newcastle segjast vera ringlaðir og sárir eftir að auðkýfingarnir frá Sádi-Arabíu hættu við að kaupa félagið.

Fjárfestarnir höfðu fyrr á árinu samþykkt að kaupa Newcastle af Mike Ashley á 300 milljónir punda en nú hefur það runnið út í sandinn.

Greg Tomlinson hjá stuðningsmannafélagi Newcastle segir að enska úrvalsdeildin þurfi að gefa svör og annar stuðningsmaður, Michelle George, segir að fólk sé niðurbrotið.

Kaupin töfðust þar sem enska úrvalsdeildin lét rannsaka hvort fjárfestarnir stæðust kröfur og lög um eigendur og forráðamenn í deildinni. Á endanum varð ekkert af kaupunum og talið er að þolinmæði Sádana hafi runnið út.

„Sem stuðningsmenn þá erum við niðurbrotnir. Þetta kann að hljóma dramatískt en við höfum þjáðst í þrettán ár undir eignarhaldi Ashley, áhuginn og fjárfestingarnar hafa verið að skornum skammti," segir George.

„Eftir alla þessa bið þá varð ekkert af þessum eigendaskiptum en við höfum enn ekki fengið almennilegar útskýringar."

Sádarnir höfðu fengið mikla gagnrýni fyrir meint mannréttindabrot og fyrir þjófnaði á sjónvarpsréttindum. Krónprins Sádi-Arabíu, Mohamed Bin Salman, fór fyrir fjárfestahópnum.

Þrátt fyrir gagnrýnina þá sýndi skoðanakönnun að 97% stuðningsmanna Newcastle voru hlynntir yfirtökunni. Margir stuðningsmenn vilja losna við Ashley.

„Allir voru spenntir yfir tilboðinu og mögulegri fjárfestingu í borginni. Þetta er því glatað tækifæri fyrir Newcastle og landsvæðið. Það er vanvirðing við stuðningsmenn hversu litlar upplýsingar við höfum fengið," segir Tomlinson.

Hann vonast þó til að eigendatíð Ashley ljúki senn. Talið er að bandaríski viðskiptamaðurinn Henry Mauriss hafi áhuga á að kaupa félagið fyrir 350 milljónir punda.
Athugasemdir
banner
banner