mið 06. október 2010 13:37
Magnús Már Einarsson
Samúel Samúelsson: Draumurinn að fara í efstu deild
Samúel og Guðjón við undirskriftina í morgun.
Samúel og Guðjón við undirskriftina í morgun.
Mynd: BÍ/Bolungarvík
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Guðjón Þórðarson var í morgun ráðinn þjálfari hjá BÍ/Bolungarvík en liðið leikur í fyrsta skipti í fyrstu deild næsta sumar. Samúel Samúelsson, stjórnarmaður í knattspyrnudeild BÍ/Bolungarvíkur, er ánægður með að hafa samið við Guðjón.

,,Við erum mjög ánægð með þessa ráðningu. Við vorum nokkra daga í viðræðum og þetta var síðan nelgt í morgun," sagði Samúel við Fótbolta.net í dag.

Guðjón skrifaði undir ótímabundinn samning við BÍ/Bolungarvíkur en hvernig er þeim samningi háttað?

,,Það er samningsatriði milli stjórnar BÍ/Bolungarvíkur og Guðjóns. Ég vill lítið tjá mig um samninginn. Við erum mjög sáttir við hann og öll atriði samningsins eru okkar á milli."

BÍ og Bolungarvík sameinuðust árið 2006 og síðan þá hefur liðið hoppað upp um tvær deildir.

,,Það hefur ekki verið leyndarmál frá því að þetta lið var sameinað þá höfum við alltaf reynt að bæta okkur frá ári til árs og við stefnum áfram á það."

,,Þegar við fórum upp úr þriðju deildinni þá töldum við það stórt stökk að fara upp í aðra deild og núna erum við komnir upp í fyrstu deild. Lífið er svona, við þurfum að fá ný verkefni og nýjar áskoranir og við reynum að standast þær,"
sagði Samúel en hvert er markmiðið fyrir næsta sumar?

,,Guðjón á eftir að setjast niður með okkur og sjá hvaða leikmenn hann hefur í höndunum. Hann hefur ekki séð liðið á æfingu ennþá og það er mjög erfitt fyrr okkur að setja fram einhver markmið eins og staðan er núna. BÍ/Bolungarvík heldur samt áfram að fara í alla fótboltaleiki til að vinna þá."

Samúel býst við að BÍ/Bolungarvík muni styrkja leikmannahópinn eitthvað fyrir næsta sumar.

,,Guðjón á eftir að sjá leikmannahópinn og vega og meta það hvort hann þurfi að fá leikmenn til félagsins en eflaust komum við til með að styrkja okkur eitthvað. Það er ekki það sama að spila í annarri deild og fyrstu deild og þetta er eitthvað sem við tökum á þegar hann er búinn að meta hvað þarf til."

Í framtíðinni er draumur BÍ/Bolungarvíkur að komast upp í Pepsi-deildina.

,,Að sjálfsögðu er það draumur og maður verður alltaf að elta drauminn. Ef stefnan væri ekki sett hátt þá væri maður ekkert að vinna í þessu. Stefnan er alltaf sett hærra og síðan verðum við að sjá til hvort það gangi eftir," sagði Samúel að lokum.
banner
banner
banner
banner
banner