Við viljum byrja á því að óska stelpunum í landsliðinu til hamingju með frábæran sigur í síðustu viku. Það var virkilega gaman að vera á vellinum og sjá þær leggja Úkraínu af velli og tryggja sig inn á EM á næsta ári, vel studdar af 6.647 áhorfendum. Áfram Ísland!
Frábær árangur kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu undanfarin ár er aðdáunarverður. Áhrifin sem þetta landslið hefur haft á ungar stúlkur þessa lands er mikill. Stúlkur hvarvetna á landinu sjá nú að þær geta gerst atvinnumenn í knattspyrnu og leikið um allan heim í fremstu röð, líkt og drengir þessa lands hafa lengi gert. Íslenska þjóðin má vera stolt af þessum frábæru fyrirmyndum.
Þessi árangur þýðir að reglulega er íslenska þjóðin með öndina í hálsinum, nú seint í október, að fylgjast með stúlkunum leika umspilsleiki um sæti á helstu stórmótum landsliða. Þessir leikir, eins gaman og það er að fylgjast með þeim, hafa dregið athyglina að leiðindastaðreynd, þ.e. að sökum ástands Laugardalsvallar er ekki hægt að treysta því að hann sé leikhæfur þegar á reynir, sé veðurfar ekki hagstætt! Með þessum pistli viljum við vekja athygli á þeirri staðreynd að þjóðarleikvangur Íslands getur hæglega orðið óleikhæfur á leikdegi sökum veðurs. Vil viljum skapa umræðu með það að markmiði að völlurinn verði lagfærður þannig að hann uppfylli nútímakröfur.
Allir Íslendingar eiga að vita að hitastig í október getur verið undir frostmarki. Þetta sáum við vel þegar kvennalandsliðið lék umspilsleik gegn Írum um sæti á Evrópumótinu í október 2009. Völlurinn var einfaldlega frosinn og stór hættulegur og af þeim sökum hefði leikurinn í raun aldrei átt að fara fram. En frestun slíkra leikja kostar gríðarlegt fjármagn og menn því mjög tregir til. Það ættu allir að þakka hverjum þeim sem þeir vilja þakka að enginn leikmaður var borinn illa slasaður af leikvelli. Aðstæður voru þannig að ekki þurfti mikið til þess að ferill einhvers leikmanns hefði liðið undir lok á frosnum leikvellinum. Um daginn spilaði karlalandsliðið okkar við Sviss, nánar tiltekið þann 16. október síðastliðinn og þar var staðan orðin þannig að Laugardalsvöllurinn var ekki langt frá því að vera óleikfær, hann var farinn að frjósa í hálfleik sem skapaði hættulegar aðstæður fyrir leikmenn.
Sú staðreynd að á Laugardalsvelli eru leiknir mikilvægir leikir seint á árinu, sýnir þá nauðsyn að í vellinum sé undirhiti. Það má jafnvel færa mjög góð rök fyrir því að Laugardalsvöllur sé eini völlurinn á landinu sem þarf slíkan búnað, einmitt þar sem hann er ekki til staðar! Kópavogsvöllur, Ólafsfjarðarvöllur, Akureyrarvöllur og Nettóvöllurinn í Keflavík , hafa slíkan búnað en ekki Laugardalsvöllur, þjóðarleikvangur Íslands!
Eitt er þó víst, vandað og rétt viðhald vallarins skilar árangri. Jóhann Kristinsson vallarstjóri og sonur hans Kristinn, hafa vandað mikið til verka við viðhald vallarins. Þar er augljóst að starfsreynsla Kristins á Higbury leikvangi Arsenalmanna, hefur skilað sér. Ástandið á vellinum hefur verið frábært, sérstaklega ef tekið er tillit til þess hversu lélegt undirlag vallarins er og við hversu frumstæðar aðstæður þeir þurfa að viðhalda vellinum. Þeir hafa einfaldlega unnið frábært starf. Þetta starf þeirra hefur í raun falið hversu alvarlegt vandamálið er og um leið hefur það líka sýnt fram á mikilvægi viðeigandi viðhalds.
Það er kaldhæðnislegt að kostnaður við það að byggja upp almennilegan knattspyrnuvöll í Laugardalnum er minni en kostnaðurinn við flóðljósabúnaðinn á sama velli. Stúkan kostaði u.þ.b. 15 sinnum meira en góður völlur myndi kosta. Um land allt eru risin knattspyrnuhús sem kosta margfalt meira en almennilegur knattspyrnuvöllur. Gervigrasvellir kosta tvisvar sinnum meira en góður náttúrugrasvöllur í uppbyggingu. Hvernig stendur á því að mikilvægasti hluti leiksins, sjálfur grasvöllurinn, situr jafn aftarlega á merinni eins og raun ber vitni? Af hverju þarf „VIP liðið“ betri aðstöðu en leikmennirnir? Af hverju erum við að senda okkar bestu knattspyrnumenn út á stórhættulegan leikvöll þar sem að ferill þeirra er lagður í hættu?
Við trúum því að KSÍ og borgaryfirvöld, sem eiga Laugardalsvöll, vilji eiga knattspyrnulandslið í fremstu röð og við trúum því að karlalandsliðið okkar eigi eftir að ná jafn langt og stelpurnar. Okkur gengur til að mynda vel núna og eigum við ágætis möguleika á að ná öðru sæti í okkar riðli. Ef allt fer á besta veg og við komumst í umspil hvað þá? Hvað myndi Lars Lagerback segja ef ekki væri hægt að spila á Laugardalsvelli í október 2013 í mikilvægasta landsleik sem íslenskst karlalandslið hefur leikið? Hvernig hefði það verið fyrir stelpurnar okkar í gær ef flytja hefði þurft leikinn á gervigrasvöll sem tekur 1000 manns í sæti? Það hlýtur að vera vilji og metnaður fyrir því að okkar landslið spili sína leiki á Laugardalsvelli þar sem okkar landslið eru vonandi vel studd af 10 þúsund áhangendum!
Laugardalsvöllur var byggður árið 1976 og síðan þá hefur lítið sem ekkert verið gert við völlinn annað en það sem getur talist grunnviðhald. Það hefur mikið breyst síðan 1976 og kröfur um gæði knattspynuvalla hafa stóraukist. Því finnst undirrituðum að KSÍ þurfi að þrýsta á Reykjavíkurborg, sem eigendur Laugardalsvallar, að völlurinn sé gerður boðlegur og uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til knattspyrnuvalla.
Það er svo annað mál hvort það sé rétt að Reykjavíkurborg eigi þjóðarleikvang Íslands. Er það eðlilegt? Laugardalsvöllur er í dag fjölnota völlur. Þar er keppt og æft í frjálsum íþróttum, skylmingum og völlurinn er heimavöllur knattspyrnuliðs Fram. Er það eitthvað sem vert er að skoða og endurmeta, á KSÍ að eiga völlinn?
Nú í aðdraganda leiks Íslands við Úkraínu um sæti á EM í Svíþjóð á næsta ári hefur mikil vinna, með frumstæðum aðferðum, farið fram á Laugardalsvelli svo völlurinn verði leikhæfur. Vel hefur tekist til og völlurinn er í fínu standi. Það þarf hinsvegar að treysta á veðurfarið en ef það er eitthvað sem við Íslendingar getum ekki treyst á, þá er það veðrið.
Það er okkar álit að KSÍ verði að hugsa sinn gang og taka út breytuna veðurfar í aðdraganda svona leikja. Tryggja þarf að þegar íslensk landslið ná jafn langt og raun ber vitni í stórmótum, að þau geti treyst á það að leikurinn og æfingar fyrir leiki fari fram á þjóðarleikvangi okkar Íslendinga sama hvernig viðrar! Eða viljum við frekar sjá Hólmfríði Magnúsdóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur eða Gylfa Sigurðsson ljúka ferlinum illa brotin, liðbandslitin eða þaðan af verra, sitjandi upp í stúku eða í beinni útsendingu frá Laugardalsvelli?
Ágúst Jensson
Golfvallafræðingur
Formaður Samtaka íþrótta og golfvallastarfsmanna á Íslandi.
Bjarni Þór Hannesson
M.Sc. Grasvallatæknifræðingur
Varaformaður Samtaka íþrótta og golfvallastarfsmanna á Íslandi
Athugasemdir