
Það er þrautinni þyngri að tippa á byrjunarlið Íslands gegn Belgíu í Þjóðadeildinni annað kvöld. Tíu leikmenn eru á meiðslalistanum og ljóst er að nýir leikmenn fá tækifæri.

Birkir Már Sævarsson og Ragnar Sigurðsson eru fjarri góðu gamni í varnarlínunni. Ari Freyr Skúlason, sem er vanalega vinstri bakvörður, byrjar sem hægri bakvörður á morgun samkvæmt spá Fótbolta.net og þeir Kári Árnason og Sverrir Ingi Ingason verða í hjarta varnarinnar. Annar möguleiki er að Sverrir spili hægri bakvörð og Jón Guðni Fjóluson verði í miðverði með Kára.
Gífurlega mikil forföll eru á miðjusvæðinu en landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson spilar þó sinn fyrsta leik síðan á HM. Fótbolti.net spáir því að Guðlaugur Victor Pálsson og Arnór Sigurðsson verði með Aroni á miðjunni. Hinn 19 ára gamli Arnór gæti spilað sinn fyrsta landsleik á morgun. Rúrik Gíslason og Arnór Ingvi Traustason verða líklega á köntunum. Albert Guðmundsson gerir líka tilkall í liðið framarlega á miðju eða á kanti.
Alfreð Finnbogason verður síðan pottþétt frammi en hann hefur verið sjóðheitur í þýsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Athugasemdir