Diaz, Salah, Gallagher, Jorginho, Greenwood, Cancelo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 16. október 2006 08:00
Hafliði Breiðfjörð
Bæði lið kepptust við að skora sjálfsmörk
Furðulegar hliðar fótboltans
Mynd: Getty Images
Í þessum lið um furðulegar hliðar fótboltans höfum við sagt ýmsar fáránlegar sögur úr boltanum en saga dagsins mun líklega toppa þær allar. Hún er af fótboltaleik tveggja landsliða sem snerist upp í það að bæði lið reyndu að skora í eigið mark og vörðu því mark andstæðinganna.

Atvikið átti sér stað í febrúarmánuði árið 1994 þegar Barbados og Grenada mættust í Shell Caribbean bikarnum. Barbados þurftu að vinna leikinn með lágmark tveggja marka sigri til að vera öruggir áfram í næstu umferð þar sem þeir áttu að mæta Trinidad og Tobago, ef tækist það ekki myndi Grenada komast áfram.

Vitleysan sem átti eftir að eiga sér stað er til komin vegna undarlegrar reglu í keppninni sem hljómar svo að ef staðan yrði jöfn þegar venjulegum leiktíma yrði lokið færi leikurinn í gullmark og það lið sem skoraði fyrst í uppbótartíma fengi skráðan á sig 2-0 sigur.

Á 83. mínútu hafði Barbados verið 2-0 yfir þegar Grenada minnkaði muninn í 2-1 og Barbados mönnum ljóst að þeir myndu detta úr keppninni því þeir yrðu að ná að setja eitt mark til viðbótar og vörn Grenada var verulega þétt fyrir.

En þá sáu þeir ljósið, og vissu alveg hvað það var sem þurfti til að vinna þennan leik. Ef andstæðingarnir, Grenada, jöfnuðu metin þá myndi leikurinn jú fara í gullmark og með því að vinna þar færu þeir með 2-0 sigur af hólmi.

Þeir brunuðu því í átt að eigin marki og skoruðu sjálfsmark og staðan orðin 2-2. Grenada menn áttuðu sig alveg á hvað var að gerast og vissu að með því að skora sjálfir sjálfsmark væru þeir áfram í keppninni. Þá gerðist hið ótrúlega að leikmenn Barbados hófu að verja mark andstæðinganna og öfugt og bæði lið reyndu hvað þau gátu að skora í eigið mark.

Síðustu fimm mínúturnar horfðu áhofendur á þennan skrípaleik beggja liða þar sem allir leikmenn reyndu að skora sjálfsmörk og markverðirnir reyndu meira að segja að henda boltanum í eigið mark en það tókst hinsvegar ekki að skora fleiri sjálfsmörk og að loknum venjulegum leiktíma var staðan 2-2.

Leikurinn fór að lokum í uppbótartíma og gullmark þar sem Barbados vann og 2-0 sigur því þeirra og þeir komnir áfram í næstu umferð.

Furðulegar hliðar fótboltans er liður hér á Fótbolta.net þar sem ein óvenjuleg saga tengd fótbolta er sögð alla virka daga. Við tökum ábendingum um slíkar sögur fegins hendi en bendum fólki þá á netfangið [email protected].

Smelltu hér til að sjá yfirlit yfir allar fréttir úr ,,Furðulegar hliðar fótboltans".
Athugasemdir
banner
banner