
Þór og Vestri áttust við á SaltPay vellinum á Akureyri í Lengjudeild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór 1 - 1 Vestri
Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en Sveinn Elías Jónsson aðstoðarþjálfari Þórs var til viðtals við Fótbolta.net eftir leikinn. Hvað hefur þú að segja eftir þennan leik?
„Þetta var skrítinn leikur, við vorum hrikalega slakir í fyrri hálfleik svo svöruðu menn vel fyrir sig fannst mér í seinni, þá vorum við miklu þéttari og mikið með boltann og óheppnir að ná ekki að klára öll þrjú stigin í lokin."
Hvað hefðuð þið þurft að gera til að ná inn sigur markinu?
„Við sköpuðum færin, það vantar oft bara þessa litlu heppni í viðbót, hún var ekki með okkur í dag en ég held að heilt yfir ef maður horfir á 90. mínútur þá var jafntefli sanngjörn niðurstaða."
Alvaro Montejo var mikill markaskorari fyrir Þór, hann er farinn frá félaginu, ætlið þið að sækja framherja í glugganum?
„Það er í skoðun hjá okkur, við erum með góðan hóp, það getur vel verið að við bætum við okkur."
Á að styrkja aðrar stöður?
„Nei, í sjálfum sér ekki, við höfum frekar verið að losa okkur við leikmenn því að hópurinn er býsna stór. Við höfum verið ánægðir með hann, sérstaklega í síðustu tveimur leikjum. Nýir menn að stíga inn hjá okkur, við eigum ennþá inni þar, ég held að hópurinn eins og hann er núna eigi töluvert inni."
Athugasemdir