Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   sun 02. júní 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Varnarmaður Liverpool ósáttur - „Þið viljið hindra framtíð mína“
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Hollenski miðvörðurinn Sepp van den Berg er allt annað en sáttur með yfirmenn sína hjá Liverpool en hann segir félagið reyna að hindra það að leyfa honum að fara.

Van den Berg er 22 ára gamall en hann kom til Liverpool frá PEC Zwolle árið 2019.

Þá þótti hann með efnilegustu varnarmönnum Hollands en aðeins fengið fjögur tækifæri til að sýna í treyju félagsins.

Síðustu fjögur tímabil hefur hann verið lánaður út til Preston, Schalke og nú síðast Mainz.

Hann gerði ágætlega með Mainz á nýafstaðinni leiktíð en nú telur hann réttast fyrir Liverpool að leyfa sér að fara.

„Ég vissi það alveg að ég gæti ekki farið úr PEC Zwolle og beint í aðalliðið. Ég hefði getað verið hjá Liverpool í eitt eða tvö ár til viðbótar, en ég vildi spila af öllum mínum krafti. Ég krafðist þess að vera lánaður því í hvert einasta sinn fann ég að ég var að verða betri og betri. Líkamlega sá ég miklar bætingar,“ sagði Van den Berg við De Telegraaf.

„Fyrsta tímabilið var alveg frábært. Það var erfitt að vera 17 eða 18 ára gamall á æfingu að verjast Roberto Firmino, Sadio Mane og Mo Salah, sem komu hlaupandi að þér, en ég naut þess. Í fullri hreinskilni samt þá hætti félagið að hugsa um mig. Mér fannst ég tilbúinn árið 2021 og átti góð samtöl við stjórnina. Þeir sögðu að skýrslan mín væri svakalega góð, en ég vissi alveg að ég væri ekki að fara spila Van Dijk, Konate og Matip úr liðinu. Ég hélt samt að ég væri næstur á eftir þeim, en ég sagði þeim að ég vildi fara þegar ég fékk ekki tækifærið aftur.“

„Liverpool hafði ekki þessa svakalegu trú á mér allan þennan tíma, en samt viljið þið hindra framtíð mína. Ég vil halda áfram að spila í hverri viku og þróa leik minn. Í Þýskalandi naut ég þess að spila úti gegn Dortmund fyrir framan 70 þúsund manns, úti gegn Bayern München og mæta Harry Kane, Stuttgart, Leipzig, Leverkusen og gegn þessum félögum þar sem hver einasti leikur er áskorun,“
sagði hann í lokin.

Van den Berg er samningsbundinn Liverpool til 2026. Félagið metur hann á 20 milljónir punda, en Brentford og Southampton eru bæði talin áhugasöm.
Athugasemdir
banner
banner
banner