
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var vonsvikinn eftir 1-0 tap liðsins á móti Finnlandi í opnunarleik Evrópumótsins í Sviss í dag.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 1 Finnland
Frammistaða íslenska liðsins var arfaslök í fyrri hálfleiknum en batnaði örlítið í þeim síðari.
Báðar þjóðir fengu mörg fín færi en Finnar þurftu bara að nýta eitt til að knýja fram sigur og það kom þegar tuttugu mínútur voru eftir og Ísland manni færri.
Þorsteinn ræddi við RÚV eftir leik.
„Við vorum ekki nógu góð fyrstu þrjátíu mínúturnar í leiknum en náðum síðan að hanga í þessu og héldum okkur í núllinu fram að því en vorum samt alltaf einhvern veginn að fá færi úr föstum leikatriðum, klafsi og bjarga á línu, en síðan fannst mér bara seinni hálfleikurinn frábær hjá okkur. Mér fannst við vera með undirtökin fram að rauða spjaldinu og vorum með þær en eftir að við urðum einum færri sýndum við hugrekki og var kraftur í liðinu og vorum að skapa. Bara góð heilt yfir allan seinni hálfleikinn en við fáum á okkur mark sem gerir þetta enn erfiðara og vonbrigði að tapa þessu en markmiðinu okkar er ekki lokið. Við ætlum að gera betur í næsta leik og það er það eina sem við hugsum um í dag,“ sagði Þorsteinn.
Glódís Perla Viggósdóttir gekk ekki alveg heil til skógar í leiknum, en hún þurfti tvisvar að fara af velli til aðhlynningar og var síðan skipt af velli í hálfleik. Ekki var um meiðsli að ræða heldur var Glódís með magakveisu og greindi hún sjálf frá því í viðtali við RÚV stuttu eftir leikinn.
„Við vissum alveg af þessu og hvað væri að fara gerast um leið og þetta kemur fyrir. Við vorum klárir með allt sem við ætluðum að gera og ekkert sem kom okkur á óvart í því. Auðvitað var þetta vont en vonandi verður hún klár í næsta leik.“
Hildur Antonsdóttir sá sitt annað gula spjald í síðari hálfleiknum fyrir að stíga á leikmann Finna. Rauða spjaldið kom mörgum í opna skjöldu enda fór þetta framhjá langt flestum og kom endursýning ekki fyrr en nokkrum mínútum síðar.
„Auðvitað varð þetta erfiðara en við vorum samt að skapa færi og líkleg til að skora. Mér fannst við með þær þó við værum einum færri. Við vorum alltaf líkleg, koma okkur í ágætis stöður, færi og bjarga á línu. Leikmenn sýndu hrikalegan kraft og vilja einum færri og pressuðum þær hátt, negldum þær niður og þær að gera endalausar varnarskiptingar af því við vorum með þær en auðvitað fáum við á okkur mark sem skilur að og um það snýst fótbolti. Það eru alltaf vonbrigði að tapa þessum leik en þetta er jafn riðill og verður jafn riðill. Það þýðir ekkert að hengja haus, það er bara næsti leikur.“
02.07.2025 18:00
Einkunnir Íslands: Ógeðslega lélegt
Í viðtalinu var Þorsteinn spurður út í fyrirsögnina hér á Fótbolta.net sem fylgdi með einkunnagjöfinni, en þar stóð: „Ógeðslega lélegt“ . Honum gæti hins vegar ekki verið meira sama.
„Mér er skítsama um hana,“ sagði Þorsteinn í lok viðtals.
Athugasemdir