Ítalska B-deildarfélagið Como er búið að tryggja sér spænska miðjumanninn Cesc Fabregas á frjálsri sölu eftir að samningur hans við Mónakó rann út.
Fabregas er 35 ára gamall og skrifaði undir tveggja ára samning við Como. Ekki nóg með það þá hefur leikmaðurinn einnig keypt hlut í félaginu og er ljóst að enginn mun geta efast um sigurvilja hans meðan hann spilar fyrir Como.
Dennis Wise, fyrrum miðjumaður Chelsea og enska landsliðsins og núverandi framkvæmdastjóri Como, greindi frá þessari fjárfestingu Fabregas.
„Ég held að Cesc muni reynast frábær fyrir okkur, við hjá félaginu erum gífurlega ánægðir með þessa ákvörðun hans að koma hingað. Ég vil færa umboðsmanni hans, Darren, og eiginkonu hans, Daniela, sérstakar þakkir fyrir að hafa sannfært hann um að flytja til Como," sagði Wise.
„Hann verður hluthafi í félaginu og mun vera partur af því lengur en bara þessi tvö ár sem segir til um í samningnum. Hann ætlar að hjálpa okkur að laga leikvanginn, opna nýja íþróttamiðstöð og komast í Serie A."
Fabregas og umboðsmaður hans keyptu báðir hlutabréf í Como, sem er staðsett við hið heimsfræga Como-vatn sem er gríðarlega vinsæll staður meðal hinna ríku. Gylfi Þór Sigurðsson gifti sig til að mynda við vatnið sumarið 2019.