Brasilíski miðvörðurinn Gleison Bremer gæti verið lengi frá eftir að hafa meiðst á hné í leik Juventus gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Varnarmaðurinn meiddist snemma leiks og var greinilega sárþjáður áður en honum var skipt af velli.
Bremer hélt um hné sitt og þurfti stuðning er hann gekk af velli, en óttast er að hann hafi slitið krossband.
Þetta er gríðarleg blóðtaka fyrir Juventus en Bremer hefur verið frábær í vörn liðsins í byrjun tímabils.
Liðsfélagi hans í Juventus, Nicolas Gonzalez, meiddist síðan aðeins nokkrum mínútum síðar og þurfti einnig að fara af velli. Hann verður líklega ekki lengi frá, en talað er um vöðvameiðsli.
Hann var á dögunum valinn í argentínska landsliðið en það kemur saman á mánudag. Gonzalez og Bremer fara báðir í frekari skoðanir á næstu dögum.
Athugasemdir