lau 02. nóvember 2019 20:09
Ívan Guðjón Baldursson
Lampard: Hissa þegar dómarinn dæmdi víti
Mynd: Getty Images
Frank Lampard er stoltur af sínum mönnum eftir 1-2 sigur gegn Watford í dag.

Þetta var fimmti sigur Chelsea í röð í úrvalsdeildinni og er liðið í þriðja sæti, tveimur stigum eftir Manchester City.

„Við spiluðum virkilega vel í dag og miðjumennirnir áttu stórleik en við getum ekki verið svona kærulausir á lokakaflanum. Við vorum næstum búnir að tapa stigunum," sagði Lampard að leikslokum.

„Síðustu tíu mínúturnar voru skelfilegar. Sem betur fer bjargaði markvörðurinn okkur en við megum ekki detta í svona kæruleysi aftur á lokakaflanum."

Staðan var 0-2 fyrir Chelsea þar til á 79. mínútu þegar Gerard Deulofeu fékk vítaspyrnu og skoraði úr henni. Endursýningar sýndu snertingu en hún virtist ekki vera mikil.

„Ég var hissa þegar dómarinn dæmdi víti. Ég sá þetta á risaskjánum og fannst þetta ekki hafa verið augljós mistök, þess vegna hélt ég að VAR herbergið myndi ekki breyta dómnum.

„Það var mjög lítil snerting og þetta er mjög grátt svæði sem við erum komin á. Það ríkir mjög skrýtið og óskýrt ástand í kringum myndbandsdómgæsluna."

Athugasemdir
banner
banner
banner