fim 03. apríl 2025 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Vorum ekki að fara í mótið með bara einn markmann"
Láki er á leið í sitt fyrsta tímabil með ÍBV.
Láki er á leið í sitt fyrsta tímabil með ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: ÍBV
ÍBV kynnti í gær nýjan leikmann en pólski markmaðurinn Marcel Zapytowski er genginn í raðir félagsins. Hann er 24 ára og er uppalinn hjá Wisla Plock í heimalandinu.

Það vekur athygli að ÍBV sæki markmann því fyrir voru þrír markmenn í hópnum hjá Eyjamönnum. Fótbolti.net ræddi við Þorlák Árnason, þjálfara ÍBV, í dag. Hann var spurður hvort Marcel væri fenginn sem aðalmarkmaður.

„Í raun vantaði okkur markmann, Jón Kristinn (Elíasson) verður ekki með okkur í sumar og það er búið að vera ljóst í nokkurn tíma. Við urðum bara að fá markmann til að hafa tvo markmenn," sagði Láki.

Hjörvar Daði Arnarsson og Halldór Páll Geirsson voru hinir tveir markmenn liðsins.

„Hjörvar er í ÍBV en það er óvissa með Halldór, hann er í lögreglunni. Við erum að vona að hann verði til taks, en það er ekkert í hendi þar. Við höfum verið Hjörvar og Jón í hendi en það eru einhverjar tvær vikur síðan það fór af stað að Jón Kristinn myndi fara frá okkur. Þá fórum við af stað að finna markmann með Hjörvari. Já, þetta er í raun jöfn samkeppni. Við vorum ekki að fara í mótið með bara einn markmann."

„Við tókum markmann á reynslu í æfingaferðina sem við ákváðum að taka ekki. Svo kom Marcel upp í kjölfarið og við ákváðum að semja við hann,"
sagði Láki.

Hann segir að Eyjamenn séu með augun opin fyrir frekari liðsstyrk. „Við erum búnir að vera horfa í kringum okkur. Þetta var óvenjuleg staða hjá ÍBV; misstum hálft byrjunarliðið í vetur. Það tekur bara tíma þegar það er svona leikmannasveifla, þá eru ákveðnir leikmenn sem takast og ákveðnir ekki. Við viljum, eins og önnur lið, vera að skoða á meðan glugginn er opinn hvort eitthvað dettur inn sem hentar okkur. Það er alveg opið, fylgjumst með hvað er í boði."

Er einhver týpa eða leikstaða sem þú horfir í að mögulega styrkja?

„Við erum mjög vel settir fram á við, erum með marga leikmenn að berjast um fremstu stöðurnar hjá okkur. Þar erum við mjög góðir, en það er ekkert leyndarmál að (við höfum verið að skoða miðsvæðið)."

„Jörgen (Pettersen) er búinn að vera frá í allan vetur og er núna að koma til. Það hefur verið mikill missir fyrir okkur. Það réttir jöfnuna aðeins að inn á miðjunni. Ég hefði viljað hafa hann til taks í Lengjubikarnum en við erum að vonast til að hann geti allavega tekið einhvern þátt á mánudag,"
segir Láki en Eyjamenn heimsækja Víking í 1. umferð Bestu deildarinnar.
Athugasemdir