„Hver maður sér það hérna í dag að ég var ekki með orku í 90 mínútur," sagði Pálmi Rafn Pálmason við Fótbolta.net í dag en hann hafði þá nýlokið við að spila sinn fyrsta fótboltaleik á árinu.
Pálmi sem lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil með KR ákvað í vor að gera félagaskipti í uppeldisfélagið, Völsung frá Húsavík. Hann var svo í byrjunarliðinu þegar liðið sótti Hauka heim á Ásvelli í dag og var ekki skipt af velli fyrr en í uppbótartíma.
„Þetta urðu helvíti margar mínútur og ég kvíði morgundeginum. Ég hafði mestar áhyggjur af því að ég gæti ekki staðið aftur upp," hélt Pálmi Rafn áfram. „Ég viðurkenni fúslega að ég er þreyttur."
Pálmi Rafn ætlar að halda áfram að spila með Völsungi í 2. deildinni í sumar.
„Ég skipti yfir til að hjálpa mínum móðurklúbb. Svo gafst tilefni til að spila leikinn í dag. Ég var búinn að segja þeim að ég gæti alls ekki spilað alla leiki en ég væri klár þegar ég gæti og hefði tíma og það var í dag. Ég stökk til, en ég var að vonast til að geta hjálpað þeim betur en þetta. Það kemur örugglega með fleiri leikjum og betra þoli," sagði Pálmi Rafn sem var að vonum ósáttur við að hafa tapað leiknum 2-0.
En er hann búinn að vera að æfa eitthvað? „Nei nei, þetta er í fyrsta skipti sem ég sparka í bolta í nokkra mánuði svo ég er ánægður að koma þokkalega heill útaf," sagði hann, en er hann ekki í einhverjum bumbubolta eða einhverju til að æfa?
„Nei ekki einu sinni. Ég er bara að taka á því í Víkingaþrekinu í Mjölni og er stoltur af því en er ekkert búinn að vera í bolta. Það var gott að fara að hlaupa og sparka smá."
Haukar unnu leikinn sem fyrr segir 2 - 0 en Völsungar hafa aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum í sumar og eru í fallsæti.
„Við vorum óheppnir að komast ekki yfir því við fengum mjög góð færi en þetta var bara 50/50 leikur fram og til baka. Ég er mjög lélegur að muna tölfræði en ég er ekki frá því að þeir hafi bara átt tvö skot á markið, en miðað við færin sem við fengum hefði ég talið að við ættum skilið að fara með eitthvað héðan. Þetta eru tvö góð lið og ég er ánægður með mína menn, við erum góðir á boltann og náum góðu spili á köflum, það vantar bara síðasta naglann."
En má búast við að hann spili fleiri leiki með Völsungum í sumar? „Já, þetta var ekki síðasti leikurinn nema ég væri frá út tímabilið. Ég reikna með að fara heim og spila eitthvað þar og meira til fyrir sunnan líka. Ég verð að taka leik heima og bara spurning hvað þeir verða margir."