fös 03. júlí 2020 14:03
Magnús Már Einarsson
Klopp útskýrir pirring í viðtali
Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var pirraður í viðtali við Sky Sports eftir 4-0 tapið gegn Manchester City í gær. Klopp var óánægður þegar spyrillinn spurði í annað skipti út í einbeitingu leikmanna í leiknum í gær í kjölfar fagnaðarláta eftir að titillinn í ensku úrvalsdeildinni var í höfn.

„Þetta er í annað skipti sem þú talar um hugarfar. Ef þú vilt að fréttin sé sú að við höfum ekki verið einbeittir í leiknum þá getur þú gert það en ég var ánægður með hugarfar liðsins," sagði Klopp.

Klopp var öllu hressari þegar hann mætti á fréttamannafund í dag fyrir leikinn gegn Aston Villa á sunnudaginn. Klopp segist hafa farið of snemma í viðtalið eftir leikinn í gærkvöldi.

„Ég var ekki í góðu skapi eftir leikinn. Ég var ekki í góðu skapi þegar ég fór að sofa og þegar ég vaknaði en þegar ég kom á Melwood æfingasvæðið sagði ég við sjálfan mig 'ég er í mjög góðu skapi," sagði Klopp.

„Af hverju? Við breyttum hlutum. Ef þú tapar leik þá tapar þú leik. Þú tekur því aldrei vel en núna höfum við fengið aðeins meiri tíma til að hugsa um þetta."

„Vandamálið við viðtöl eftir leiki er að þú færð eina mínútu til að fara inn og svo þarftu að fara í öll viðtölin. Við töpuðum þessum leikjum á lykil augnablikum. City voru betri en við á þessum augnablikum."

„Við gáfum vítaspyrnu, við fengum á okkur mark eftir innkast, við létum Joe (Gomez) vera einan á móti (Raheem) Sterling sem enginn leikmaður á að lenda í. Við vorum góðir þess utan. Við komumst í góðar stöður en kláruðum þær ekki."

Athugasemdir
banner
banner