Trent efstur á blaði Real - Newcastle vill Mbeumo - Arsenal hefur áhuga á Kudus
   fim 03. október 2024 21:06
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Maguire bjargaði stigi fyrir Man Utd - Bruno aftur rekinn af velli
Bruno Fernandes fékk rautt spjald annan leikinn í röð
Bruno Fernandes fékk rautt spjald annan leikinn í röð
Mynd: Getty Images
Harry Maguire kom United til bjargar
Harry Maguire kom United til bjargar
Mynd: Getty Images
Elfsborg vann óvæntan sigur á Roma
Elfsborg vann óvæntan sigur á Roma
Mynd: Getty Images
Enski varnarmaðurinn Harry Maguire bjargaði stigi fyrir Manchester United er liðið gerði 3-3 jafntefli við Porto í annarri umferð Evrópudeildarinnar í kvöld. Bruno Fernandes, fyrirliði United, var rekinn af velli annan leikinn í röð.

United-liðið hefur verið mikil vonbrigði í byrjun leiktíðar. Það er nú þegar sex stigum frá fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur ekki enn náð í sigur í Evrópudeildinni.

Talið er að starf Erik ten Hag hangi á bláþræði og fer hitinn undir sæti hans hækkandi eftir úrslit kvöldsins.

United ætlaði að svara fyrir slaka frammistöðu gegn Tottenham um síðustu helgi og fór það vel af stað. Marcus Rashford skoraði glæsilegt mark á 7. mínútu.

Englendingurinn fékk boltann frá Christian Eriksen á vinstri vængnum, lék á varnarmenn Porto áður en hann skaut í nærhornið. Þrettán mínútum eftir markið lagði hann upp annað fyrir Rasmus Höjlund.

Eriksen fann Rashford vinstra megin við teiginn, sem stakk boltanum inn fyrir á Höjlund. Hann gerði eins og Rashford í fyrra markinu, setti boltann á nær. Diogo Costa, markvörður Porto, tókst að koma hönd í boltann, en ekki nóg.

Góð byrjun United sem tókst þó að glutra niður forystunni áður en fyrri hálfleikurinn var úti.

Brasilíski sóknarmaðurinn Pepe skoraði á 27. mínútu. Noussair Mazraoui átti í erfiðleikum með að stanga fyrirgjöf frá og fór boltinn í stað þess á Andre Onana sem varði boltann út á Pepe sem skoraði af stuttu færi.

Sjö mínútum síðar jafnaði Samuel Omorodion metin eftir sendingu Joao Mario. United í mestu vandræðum með fyrirgjafir portúgalska liðsins í leiknum.

Í byrjun síðari hálfleiksins var endurkoma Porto fullkomnuð. Pepe var sendur í gegn hægra megin, hann lagði síðan boltann út í teiginn á Omorodion sem þrumaði boltanum upp í þaknetið.

Um helgina fékk Bruno Fernandes að líta rauða spjaldið gegn Tottenham. Spjald sem var talið óverðskuldað og sannaðist það þegar United vann áfrýjun sína eftir leikinn.

Fyrirliðinn var aftur rekinn af velli í kvöld. Hann fékk gult spjald á 32. mínútu og sitt annað gula um tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma fyrir hættuspark.

United tókst þó að koma til baka. Þegar lítið var eftir af leiknum jafnaði varamaðurinn Harry Maguire með skalla eftir hornspyrnu Eriksen og lokatölur því 3-3.

Íslendingalið Elfsborg vann óvæntan 1-0 sigur á ítalska stórliðinu Roma.

Andri Fannar Baldursson og Eggert Aron Guðmundsson voru báðir á bekknum hjá Elfsborg, en komu ekkert við sögu.

Michael Baidoo skoraði sigurmark Elfsborg úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Roma var töluvert meira með boltann í leiknum og fékk ágætis sénsa, en nýtti ekki.

Ekki í fyrsta sinn sem Roma lendir í vandræðum með lið frá Skandinavíu, en Bodö/Glimt frá Noregi vann Roma tvisvar í Sambandsdeildinni tímabilið 2021-2022.

Nico Williams lagði upp tvö er Athletic Bilbao vann 2-0 sigur á AZ Alkmaar.

Inaki, bróðir Nico, skoraði fyrra markið en Oihan Sancet seinna markið þegar lítið var eftir.

Staðan í Evrópudeildinni er þannig að aðeins fimm lið eru með fullt hús stiga, en það eru Lazio, Lyon, Tottenham, Steaua Bucharest og Anderlecht en lið á borð við Roma og Real Sociedad eru aðeins með eitt stig. United er með tvö stig.

Athletic 2 - 0 AZ
1-0 Inaki Williams ('72 )
2-0 Oihan Sancet ('86 )

Besiktas 1 - 3 Eintracht Frankfurt
0-1 Omar Marmoush ('19 , víti)
0-2 Eric Ebimbe ('22 )
0-2 Ciro Immobile ('27 , Misnotað víti)
0-3 Ansgar Knauff ('82 )
1-3 Arthur Masuaku ('90 )

Elfsborg 1 - 0 Roma
1-0 Michael Baidoo ('44 , víti)

Porto 3 - 3 Manchester Utd
0-1 Marcus Rashford ('7 )
0-2 Rasmus Hojlund ('20 )
1-2 Pepe Aquino ('27 )
2-2 Samu Omorodion ('34 )
3-2 Samu Omorodion ('50 )
3-3 Harry Maguire ('90 )
Rautt spjald: Bruno Fernandes, Manchester Utd ('81)

Twente 1 - 1 Fenerbahce
1-0 Michel Vlap ('29 )
1-1 Dusan Tadic ('71 )

PAOK 0 - 1 Steaua
0-1 Daniel Birligea ('45 )
Rautt spjald: Darius Olaru, Steaua ('56)

Rangers 1 - 4 Lyon
0-1 Malick Fofana ('10 )
1-1 Tom Lawrence ('14 )
1-2 Alexandre Lacazette ('19 )
1-3 Alexandre Lacazette ('45 )
1-4 Malick Fofana ('55 )

St. Gilloise 0 - 0 Bodo-Glimt

Plzen 0 - 0 Ludogorets
0-0 Jakub Piotrowski ('52 , Misnotað víti)
Athugasemdir
banner
banner