Erik ten Hag, stjóri Manchester United, talaði enn og aftur um ferlið sem liðið er að fara í gegnum og sagði að best væri að dæma liðið í lok tímabils, er hann ræddi við TNT Sports eftir 3-3 jafnteflið gegn Porto í kvöld.
United bíður enn eftir fyrsta sigrinum í Evrópudeildinni en liðið hefur ekki farið tímabilið vel af stað.
Ten Hag hefur tönnlast á því að liðið sé í ferli og að það muni taka sinn tíma.
„Við byrjuðum leikinn vel, vorum með yfirhöndina, skoruðum tvö mörk, en misstum síðan stjórnina. Eins og ég sagði þá var byrjunin góð, miðjan var ekki góð, en við kláruðum þetta á góðum nótum. Þetta er erfiður staður til að koma á, en við komum til baka úr 3-2 og náðum í jöfnunarmark. Liðið er með sterkan karakter, en við þurfum að bæta miðjupartinn.“
„Við þurfum að vera betri á boltann og halda áfram að skipta. Við vorum með góða leikmenn og gott skipulag. Við þurfum að verjast betur. Það er ekki langt síðan við héldum hreinu þrjá leiki í röð, þannig við kunnum alveg að verjast, en við verðum bara komast aftur í þann vana.“
Marcus Rashford, sem skoraði og lagði upp í fyrri hálfleik, var tekinn af velli í hálfleik, en Ten Hag segist þurfa að dreifa álaginu á leikmannahópinn.
„Við verðum að dreifa álaginu. Við byrjuðum ekki Garnacho, en hann átti frábæran leik, ekki bara á sunnudag, heldur allt tímabilið. Nú þurfum við að jafna okkur fyrir leikinn gegn Villa sem er á útivelli og þeir fengu einn aukadag í hvíld.“
Sæti Ten Hag er heitt. Úrslitin eru ekki að skila sér og þolinmæði stjórnarinnar að renna á þrotum, en Ten Hag telur það ekki rétt að dæma liðið á þessum tímapunkti.
„Ekki dæma okkur á þessu augnabliki, gerðu það frekar í lok tímabils. Við erum enn að fara í gegnum ferli, þannig bíddu bara. Við höfum farið í úrslitaleiki á þessum tveimur tímabilum og munum halda áfram að berjast.“
„Þú sérð andann og tenginguna milli þjálfaraliðsins og leikmanna. Það eru allir í þessu saman og þeir vilja afreka hluti. Við erum með gott hugarfar, en við þurfum að laga nokkra hluti í varnarleiknum,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir