Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
   þri 03. desember 2024 22:20
Brynjar Ingi Erluson
England: Sigur í fyrsta leik Van Nistelrooy
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Julen Lopetegui gæti fengið sparkið eftir þessa umferð
Julen Lopetegui gæti fengið sparkið eftir þessa umferð
Mynd: EPA
Leicester City 3 - 1 West Ham
1-0 Jamie Vardy ('2 )
2-0 Bilal El Khannouss ('61 )
3-0 Patson Daka ('90 )
3-1 Niclas Fullkrug ('90 )

Nýliðar Leicester City byrja frábærlega undir stjórn Ruud van Nistelrooy en liðið vann West Ham United, 3-0, í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Van Nistelrooy tók við Leicester um helgina og er strax farinn að hafa áhrif.

Jamie Vardy skoraði strax á 2. mínútu leiksins. Bilal El Khannouss, sem kom inn í byrjunarliðið í kvöld, sendi Vardy í gegn sem lagði boltann framhjá Lukasz Fabianski í markinu.

Rangstaða var dæmd á vellinum en þeirri ákvörðun breytt með hjálp VAR.

West Ham spilaði frábærlega í fyrri hálfleiknum en fór illa með færin. Danny Ings átti skalla í stöng á 13. mínútu og þá varði Mads Hermansen, markvörður Leicester, frá Jarrod Bowen þegar tíu mínútur voru eftir af hálfleiknum.

Í síðari hálfleiknum fannst West Ham-mönnum dómgæslan halla aðeins á þá.

Crysenscio Summerville kom boltanum í netið á 58. mínútu. Hann fékk boltann í teignum, en hitti hann illa þannig hann flaug hátt upp í loftið. Hermansen ætlaði að kýla boltann frá en þá mætti Tomas Soucek utan í hann. Boltinn hafnaði í netinu en markið var dæmt af. VAR taldi að Soucek hafi brotið á Hermansen þó snertingin hafi ekki verið mikil.

Í næstu sókn skoruðu Leicester-menn annað mark sitt og var þar að verki El Khannouss með skoti úr teignum eftir undirbúning frá Kasey McAteer.

West Ham-menn voru einnig ósáttir við atvik sem átti sér stað í teig Leicester þar sem boltinn fór í höndina á Wilfred Ndidi en engin vítaspyrna dæmd. Það var metið sem svo að þetta hafi verið óviljaverk.

Tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma kom Bobby Reid boltanum í netið í þriðja sinn fyrir Leicester í leiknum. Markið var dæmt af vegna rangstöðu, en þriðja markið kom fyrir rest.

Það gerði varamaðurinn Patson Daka sem var að skora sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu. Sambíumaðurinn stal boltanum af Max Kilman við miðju, hljóp upp vænginn og inn að teignum áður en hann skaut boltanum efst í nærhornið.

Þýski sóknarmaðurinn Niclas Füllkrug náði í eitt sárabótarmark fyrir West Ham í uppbótartíma með skalla eftir hornspyrnu Bowen.

Sjöunda deildartap West Ham á tímabilinu og algerlega óvíst hvort Julen Lopetegui muni ná að lifa þetta tap af. West Ham er í 14. sæti með 15 stig eftir fjórtán leiki en Leicester í sætinu fyrir neðan með 13 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner