Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 04. mars 2021 18:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Verður leikurinn við Þýskaland færður annað?
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson og Jón Daði Böðvarsson, leikmaður Millwall í Englandi.
Arnar Þór Viðarsson og Jón Daði Böðvarsson, leikmaður Millwall í Englandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson. Þeir spila báðir í Englandi.
Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson. Þeir spila báðir í Englandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það ríkir nokkur óvissa fyrir landsleiki Íslands í undankeppni HM síðar í þessum mánuði.

Ísland á útileiki við Þýskalands 25. mars, Armeníu þremur dögum síðar og gegn Liechtenstein 31. mars.

Reglur sem voru settar í kjölfarið á kórónuveirufaraldrinum leyfa félagsliðum að banna leikmönnum sínum að fara í landsliðsverkefni sem valda því að þeir þurfi að fara í að minnsta kosti fimm daga sóttkví við heimkomu. Það gæti orðið til þess að einhverjum íslenskum verði bannað að fara til móts við landsliðið.

Þá er vandamál með það hvort leikmenn sem spila á Englandi megi fara til Þýskalands en leikir enskra félagsliða gegn þýskum félagsliðum í Evrópukeppnum hafa verið færðir til annarra landa út af reglum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn í Þýskalandi.

Ísland gæti þá verið án Gylfa Þórs Sigurðssonar, Jóhanns Bergs Guðmundssonar, Jóns Daða Böðvarssonar og Rúnars Alex Rúnarssonar í leiknum gegn Þýskalandi.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, segir í samtali við Vísi að þessir leikmenn verði vonandi með.

„Við vitum ekki hvort að Þýskaland hleypi fólki inn í landið sem er að koma frá Bretlandi en vonumst auðvitað til þess," sagði Arnar.

„Í fyrsta lagi er von á nýjum reglum í Þýskalandi. Í öðru lagi er UEFA í stöðugu sambandi við þessi stóru knattspyrnusambönd. Það að Bretland sé farið úr Evrópusambandinu flækir hlutina, svo nú eru nýjar reglur fyrir hvert land og það eru ansi margir leikmenn að fara frá Englandi í landsliðsverkefni. UEFA mun því reyna allt til að leysa þessi mál."

Arnar telur að UEFA muni kannski færa leikinn frá Þýskalandi ef leikmennirnir komast ekki þangað. „Við erum lítið knattspyrnusamband. Við sjáum að UEFA leysir málin í Meistaradeildinni með því að færa leiki til annarra landa. Það gæti því verið að UEFA segi við Þýskaland að verði hlutirnir óbreyttir þá megi þeir ekki spila í Þýskalandi."

„Síðan getur líka verið að UEFA segi: 'Þetta er bara svona, finnið út úr þessu og veljið bara aðra leikmenn.' Það er svolítið ósanngjarnt fyrir Ísland í samanburði við Þýskaland... Fyrir okkur að missa Jóa, Rúnar, Gylfa og Jón Daða þá væri það ansi stór hluti af okkar hópi. Við búum ekki við þann lúxus að geta valið fjóra aðra svona leikmenn."

„Við göngum út frá því núna að UEFA, knattspyrnusamböndin og yfirvöld sjái til þess að þessir leikir verði spilaðir á jöfnum og réttum grundvelli. Annars yrðu þetta þung högg fyrir minni þjóðirnar sérstaklega," segir Arnar.

Að því er kemur fram í frétt Vísis þá er landsliðsþjálfarinn búinn að velja stóran hóp í verkefnið og félagsliðin hafi fram í næstu viku til að ákveða hvort leikmennirnir megi fara í verkefnið.
Athugasemdir
banner
banner
banner