Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 04. ágúst 2022 15:30
Elvar Geir Magnússon
Siggi Lár var „geggjaður" í bakverðinum - Fékk ráð frá Bjarna Ólafi
Sigurður Egill Lárusson.
Sigurður Egill Lárusson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már í leiknum í gær.
Birkir Már í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sigurður Egill Lárusson spilaði sem sókndjarfur bakvörður vinstra megin þegar Valur vann 2-0 sigur gegn FH í Bestu deildinni í gær. Hann er vanur því að vera á kantinum en fær mikið lof fyrir frammistöðuna í nýrri stöðu.

Rætt var um frammistöðu hans í hlaðvarpsþætti stuðningsmanna Vals, Vængjum þöndum.

„Ég bauð Sigga velkominn í bakvarðaklúbbinn og sagði honum að hann myndi ekkert losna þaðan núna. Hann er bara orðinn bakvörður núna eftir þessa frammistöðu held ég. Hann var geggjaður, eins og hann hefði ekki gert neitt annað," segir hægri bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson sem var gestur í þættinum.

„Hann hringdi í Bjarna Ólaf (Eiríksson) veit ég og fékk punkta frá honum. Svo ræddum við aðeins málin," bætir Birkir við en Bjarni lék lengi í vinstri bakverðinum hjá Val með góðum árangri.

Upplegg Ólafs Jóhannessonar, þjálfara Vals, heppnaðist afskaplega vel í gær. Jesper Juelsgård sem hefur verið í bakverðinum var mættur í miðvörðinn.

„Hann er fyrst og fremst mjög góður að spila boltanum, milli lína og svona. Hann er geggjaður á boltanum og góður varnarmaður. Hann er góður leikmaður og það er alltaf kostur að hafa vinstri fótar mann í hafsentnum vinstra megin," segir Birkir um þann danska.

Þá átti Frederik Schram frábæran leik í marki Valsmanna.

„Hann hefur komið frábærlega inn í þetta. Þó við höfum verið að fá mörg mörk á okkur þá er það bara lélegur varnarleikur, ekkert sem skrifast á hann. Hann hefur komið flottur inn í klefann og út á völlinn. Þetta er flottur náungi," segir Birkir.

Eftir þennan sigur er Valur þremur stigum frá þriðja sætinu, sem gæti gefið Evrópuþátttöku eftir tímabilið.

„Þessi þrjú stig eru risastór og mjög mikilvæg. Við vorum að verjast og sækjast sem lið. Þetta var meiri liðsframmistaða en hefur verið upp á síðkastið."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner