Jóhann Berg Guðmundsson gekk í raðir Burnley eftir Evrópumótið og leikur því í skemmtilegustu (vissulega matsatriði) deildarkeppni heims, ensku úrvalsdeildinni. Hann segir að fyrstu mánuðirnir í Burnley hafi verið mjög skemmtilegir.
„Við höfum spilað við Chelsea og Liverpool, eins og ég hef sagt áður þá hefur manni dreymt um að spila í þessari deild og það er gaman að hafa gert það," segir Jóhann.
Burnley kom á óvart í 2. umferð og vann sigur á Liverpool, það var auðvitað ekki leiðinlegt fyrir Jóhann að taka þátt í því.
„Sem Manchester United maður var það mjög skemmtilegt. Það var líka mjög mikilvægt fyrir okkur eftir tap í fyrsta leik að ná í fyrstu þrjú stigin í deildinni. Við vissum að það yrði erfitt að mæta Chelsea á útivelli eftir það svo það var mikilvægt að ná í þessi stig."
Liverpool stuðningsmenn hafa mikið bent á tölfræðina úr leiknum þar sem þeirra lið var mikið mun meira með boltann og átti miklu fleiri sóknir.
„Var þetta ekki bara svipað og þegar við mættum Englendingunum? Þeir voru meira með boltann en sköpuðu sér ekki mikið af færum. Þó þeir hafi verið aðeins meira með boltann snýst þetta um að skora meira en andstæðingurinn."
Það má segja að Jóhann Berg hafi verið fyrsti varamaður í leikjum Burnley það sem af er og hann ætlar að vinna sér inn fast sæti í liðinu.
„Ég tel mig vera nálægt því. Ég hef spilað mikið þó ég hafi verið á bekknum, ég hef verið að koma inn frekar snemma. Ég tel að ég sé ekki langt frá byrjunarliðssætinu."
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan en þar talar Jóhann einnig um fyrsta landsleik Íslands í undankeppni HM, leikinn gegn Úkraínu á mánudaginn.
Athugasemdir






















