Eyjólfur Sverrisson, þjálfari íslenska U21 árs landsliðsins, var svekktur með 3-2 tapið gegn Albaníu í dag. Hann sá þó margt jákvætt í leiknum.
Lestu um leikinn: Ísland U21 2 - 3 Albanía U21
„Þetta er gríðarlega svekkjandi. Við erum að gera of mikil mistök og missum einbeitinguna þegar við erum að skora og erum enn að fagna. Það er svekkjandi að halda það ekki út og vera klókari í okkar leik," sagði Eyjólfur við Fótbolta.net.
Ísland komst yfir er Axel Óskar Andrésson skoraði eftir hornspyrnu en aðeins mínútu síðar jöfnuðu gestirnir.
„Mér fannst svekkjandi að vinnuframlagið þeirra var svolítið meira en okkar. Við vorum alltof stilltir á vellinum, þurfum að bæta það og vera fastari fyrir."
Föstu leikatriðin hjá Íslandi gengu upp. Bæði mörkin komu eftir slík og það var lagt mikið upp úr þeim fyrir leikinn.
„Þau voru af æfingasvæðinu. Það var jákvætt og það gekk upp en við þurfum að bæta varnarleikinn."
Ísland spilaði 4-4-2 í dag en Albert Guðmundsson virkaði þó í frjálsu hlutverki.
„Hann kemur mikið í boltann þegar við eigum erfitt með að byggja upp og hann átti mjög góðan leik í dag og er mikið talent," sagði hann ennfremur.
Ísland spilar nú fimm útileiki í röð í undankeppninni en hann sagði það hafa hitt bara þannig á.
„Það hittist þannig á og er mjög sérstakt. Ég hef aldrei upplifað þetta áður en við verðum að vera með góðan varnarleik, bæta það og vera fastir fyrir."
Mikael Neville Anderson var ekki í leikmannahóp Íslands en hann var ekki kominn með leikheimild.
„Hann er öflugur leikmaður og það hefði verið plús," sagði hann í lokin.
Athugasemdir