sun 04. september 2022 21:51
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Keflavík ætlar í efri hlutann
Frans Elvarsson skoraði fyrra mark Keflvíkinga
Frans Elvarsson skoraði fyrra mark Keflvíkinga
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Joey Gibbs skoraði langþráð mark
Joey Gibbs skoraði langþráð mark
Mynd: Haukur Gunnarsson
Stjarnan 0 - 2 Keflavík
0-1 Frans Elvarsson ('51 )
0-2 Josep Arthur Gibbs ('58 )
Lestu um leikinn

Keflavík lagði Stjörnuna að velli, 2-0, í 20. umferð Bestu deildar karla í kvöld en leikurinn fór fram á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur, hafði nóg að gera í fyrri hálfleiknum og átti nokkrar góðar vörslur en engin var betri en þegar Guðmundur Baldvin Nökkvason fékk boltann í teignum og mundaði skotfótinn.

Markvörður Keflvíkinga varði frábærlega og hoppaði síðan á boltann sem var að leka yfir línuna.

Gestirnir mættu sprækir til leiks í þeim síðari. Frans Elvarsson kom Keflavík yfir. Tveir leikmenn Stjörnunnar voru liggjandi, óvígir í grasinu er Keflvíkingar geystust fram völlinn. Adam Ægir Pálsson fékk hann á vængnum, kom honum fyrir markið og þar var Frans Elvarsson mættur að setja boltann út við stöng.

Stjarnan var nálægt því að jafna stuttu síðar en skot Einars Karls Ingvarssonar hafnaði í þverslánni.

Keflvíkingar refsuðu fyrir það og bætti Joey Gibbs við öðru marki á 58. mínútu. Adam Ægir með fyrirgjöfina beint á kollinn á Gibbs sem stangaði boltann í netið.

Aftur var það Einar Karl sem hótaði marki eftir mark frá Keflvíkingum en í þetta sinn fór boltinn í innanverðu stöngina. Heppnin ekki með honum í dag.

2-0 sigur Keflvíkinga staðreynd. Liðið er nú í harðri baráttu um að komast í meistarariðilinn. Þegar tveir leikir eru eftir af þessum fyrstu 22 umferðum er Keflavík með 25 stig í 7. sæti, tveimur stigum á eftir KR en efstu sex liðin fara í meistarariðilinn. Stjarnan er á meðan í 5. sæti með 28 stig.
Athugasemdir
banner