Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 04. september 2022 15:25
Ívan Guðjón Baldursson
Jón Dagur skoraði gegn Anderlecht - Mikael fékk korter gegn Bologna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði OH Leuven sem heimsótti stórlið Anderlecht í belgíska boltanum í dag.


Jón Dagur skoraði fyrsta mark leiksins í 2-2 jafntefli og er Leuven með 13 stig eftir 7 umferðir, þremur stigum meira en Anderlecht.

Leuven tók forystuna í tvígang en Fabio Silva, lánsmaður frá Wolves, gerði seinna jöfnunarmark heimamanna og er meðal markahæstu manna deildarinnar með fjögur mörk.

Þetta var þriðja markið hans Jóns Dags sem hefur farið vel af stað í nýrri deild.

Anderlecht 2 - 2 Leuven
0-1 Jón Dagur Þorsteinsson ('19)
1-1 J. Duranville ('71)
1-2 M. Al-Tamari ('74)
2-2 Fabio Silva ('85)

Mikael Egill Ellertsson kom þá við sögu í jafntefli Spezia gegn Bologna í Serie A deildinni á Ítalíu. Mikael Egill fékk að spreyta sig síðasta stundarfjórðunginn og leit vel út. Hann hefur núna komið inn af bekknum í fjórum af fimm deildarleikjum liðsins.

Spezia gerði 2-2 jafntefli þar sem Marko Arnautovic skoraði bæði mörk gestanna frá Bologna. Spezia er með fimm stig eftir fimm umferðir og verður áhugavert að sjá hvort Mikael takist að vinna sér inn stærra hlutverk, en hann er ekki nema 20 ára gamall.

Viðar Ari Jónsson fékk þá síðasta hálftímann í fræknum sigri Honved á útivelli gegn toppliði ungversku deildarinnar, Kisvarda. Honved er með átta stig eftir sjö umferðir.

Andri Fannar Baldursson var ónotaður varamaður hjá NEC Nijmegen í markalausu jafntefli á útivelli gegn Heerenveen. Nijmegen er með sex stig eftir fimm umferðir.

Spezia 2 - 2 Bologna

Kisvarda 0 - 1 Honved

Heerenveen 0 - 0  NEC Nijmegen


Athugasemdir
banner
banner
banner