Victor Osimhen var fyrir stuttu talinn einn besti sóknarmaður í heimi. Núna er hann að fara að spila með Galatasaray í Tyrklandi.
Hvað gerðist eiginlega?
Hvað gerðist eiginlega?
Ýmsir miðlar hafa fjallað um málið síðustu daga en það bjóst enginn við því að Osimhen - sem var aðalmaðurinn í þriðja deildarmeistaratitli í sögu Napoli - myndi enda hjá Galatasaray á láni.
Osimhen varð hetja í Napoli þegar hann skoraði 31 mark í 39 leikjum tímabilið 2022/23. Það tímabil vann Napoli sinn fyrsta deildarmeistaratitil í 33 ár og nígeríski sóknarmaðurinn var líklega stærsta ástæðan fyrir því. Það voru ekki bara mörkin, það var líka hugarfarið. Luciano Spalletti, þáverandi þjálfari Napoli, talaði um það fyrir tímabilið sem Napoli varð meistari að ef allir leikmenn hefðu eins mikla trú og Osimhen, þá væri möguleiki. Trúin sem hann hafði smitaði frá sér og endaði með fallegum hætti.
Græðgi og klaufaskapur
Spalletti, maðurinn sem vann svo vel með Osimhen, hætti eftir titilinn og Rudi Garcia kom inn. Hann gerði nú ekki merkilega hluti og það myndaðist ákveðinn óstöðugleiki hjá Napoli. Utan vallar hegðaði félagið sér klaufalega þegar það gerði grín að Osimhen á TikTok og mátti túlka rasisma í myndbandi félagsins um hann. Osimhen og umboðsmaður hans hótuðu að lögsækja ítalska félagið.
Osimhen skoraði sín mörk en hann fann ekki sama takt og áður. Á sama tíma súrnaði samband hans og félagsins, og krafðist hann þess að fá að fara; að fá að taka næsta skref á sínum ferli.
Það var riftunarverð í samningi hans hjá Napoli upp á 130 milljónir evra út af samningi sem hann skrifaði undir fyrir stuttu. Ekkert félag var tilbúið að borga það núna fyrir sóknarmann sem var að koma úr niðursveiflutímabili. Napoli var gráðugt og ákvað að halda honum í eitt tímabil í viðbót þegar það hefði örugglega getað selt hann fyrir góða upphæð síðasta sumar, en fótboltaheimurinn er að breytast núna með hertari fjárhagsreglum þar sem félög eru að taka minni áhættur, allavega var það þannig í sumar. Al-Ahli í Sádi-Arabíu var ekki einu sinni tilbúið að borga verðmiðann og kaus frekar að sækja Ivan Toney.
Chelsea, eitt af fáum stórum félögum sem var að leita að níu í sumar, var þá ekki tilbúið að borga launapakkann til að fá hann á láni. Það var ekki bara Napoli sem var gráðugt, hann var það líka. Hann hafði skrifað undir stóran samning við félagið og var ekki tilbúinn að lækka í launum til að fara annað.
Betra en að vera í frystinum
Staðan varð slæm þegar glugganum var lokað í stærstu deildum Evrópu og í Sádi-Arabíu. Gluggadagurinn var klaufalegur hjá honum og Napoli, en engin niðurstaða hafði náðst. Osimhen var í frystikistunni hjá Napoli þar sem hann hafði beðið um að fá að fara annað og Romelu Lukaku var mættur til félagsins. Þegar engir möguleikar voru eftir, þá kom Galatasaray inn í myndina en félagaskiptaglugginn var lokaður annars staðar en í Tyrklandi og var félagið tilbúið að borga launin sem beðið var um. Þetta er betra en að vera í frystinum.
Þetta er frekar vandræðalegt allt saman, en Osimhen var tilbúinn að fara þangað þar sem hann fær að fylgja í fótspor hetju sinnar, Didier Drogba, sem spilaði með Galatasaray á sínum tíma. Það sem er líka mikilvægt fyrir Osimhen er að hann fær að hafa ákveðin völd þar sem hann má fara í janúar ef eitthvað af hans uppáhalds félögum gerir honum tilboð þá. Hann fær að spila þangað til í janúar - í stað þess að vera í frystinum - og fær að sýna að það býr mikið í honum enn.
Þeir sem gagnrýna Osimhen vilja meina að hann sé meiðslahrjáður framherji sem hafi bara átt eitt frábært tímabil og ekki sé hægt að verðmeta hann á 130 milljónir evra, ekki sé hægt að treysta almennilega á hann fyrir slíkan pening. Hann tekur núna skref niður á við og þarf að sýna hvað hann getur. Þá gætu stærstu félögin aftur hugsað sér að eyða stórum upphæðum í hann.
Athugasemdir