sun 04. október 2020 22:38
Ívan Guðjón Baldursson
Mourinho: Ef það er eitt lið sem má ekki kvarta undan VAR
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho stýrði Tottenham til stórsigurs í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar hans menn niðurlægðu Rauðu djöflana í Manchester United á Old Trafford.

Tottenham skoraði sex mörk í leiknum en staðan var 1-2 þegar Anthony Martial fékk beint rautt spjald í liði heimamanna fyrir að setja hendi í andlit á Erik Lamela. Snertingin var minniháttar og lét Lamela sig falla til jarðar á dramatískan hátt til að fiska rautt spjald á mótherja sinn.

Mourinho var spurður út í atvikið að leikslokum og sagðist ekki hafa séð það. Hann segir Man Utd þó ekki eiga neinn rétt á að kvarta undan VAR kerfinu eftir allar vítaspyrnurnar sem liðið fékk á síðustu leiktíð.

„Ég sá ekki hvað gerðist en ef það er eitthvað félag sem má kvarta undan VAR þá er það Tottenham. Ef það er eitthvað félag sem má ekki kvarta undan VAR þá er það Manchester United," sagði Mourinho.

„Það eina sem ég veit er að við spiluðum ótrúlega vel og markmiðið okkar fyrir leikinn var að sigra. Við gerðum það."

Tottenham er með sjö stig eftir fjórar umferðir á nýju úrvalsdeildartímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner