þri 05. janúar 2021 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Ings um Hasenhüttl: Hann er með mikla ástríðu
Danny Ings hefur verið öflugur á þessari leiktíð
Danny Ings hefur verið öflugur á þessari leiktíð
Mynd: Getty Images
Danny Ings skoraði sjöunda mark sitt í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili í gær er hann tryggði Southampton 1-0 sigur á Englandsmeisturum Liverpool, en hann var afar ánægður með framlag leikmanna.

Ings, sem er 28 ára gamall, spilaði glimrandi vel með Burnley í fjögur ár áður en Liverpool fékk hann á frjálsri sölu árið 2015. Tími hans hjá Liverpool var hins vegar erfiður og gerðu meiðsli honum erfitt fyrir.

Hann spilaði aðeins 25 leiki og skoraði 4 mörk hjá Liverpool áður en hann fór til Southampton þar sem hann fann taktinn og náði að halda sér frá meiðslum.

Ings er nú kominn með 7 mörk og 3 stoðsendingar í 13 leikjum með Southampton í deildinni á þessari leiktíð og var hann afar ánægður með markið og úrslitin í gær.

„Við vissum að þetta yrði erfitt og því var mikilvægt að halda aga þegar við vorum ekki með boltann. Það var risastórt að ná í þessi úrslit," sagði Ings.

„Það er frábært að vera í þessari stöðu. Síðustu tímabil þá höfum verið gengið í gegnum erfiða kafla á þessum tímapunkti og því var frábært að hafa byrjað árið svona og halda áfram að bæta okkur. Við viljum halda þessu áfram."

Ralph Hasenhüttl, stjóri Southampton, sýndi miklar tilfinningar í leikslok og felldi nokkur tár en Ings segir austurríska stjórann vera með mikla ástríðu.

„Hann er með mikla ástríðu og hann kemur með það inn í leikinn. Það er frábært fyrir okkur að sjá þetta. Stjórinn lætur okkur vinna fyrir hlutunum og það er að skila sér," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner