Jóhann Ólafur Sigurðsson, markvörður Selfyssinga, skrifaði ritgerð um aðkomu og áhrif júgóslavneskra leikmanna á knattspyrnumenningu Íslands. Með hans leyfi birtum við hér hluta úr ritgerðinni þar sem fjallað er um þau áhrif sem júgóslavneskir leikmenn höfðu á lið ÍA.
Orðið knattspyrnubær á einkar vel við Akranes. Það er ótrúlegt að kaupstaður sem taldi árið 2011 6.664 þúsund íbúa skuli hafa orðið Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í knattspyrnu 18 sinnum.
Árið 1990 gerðist hins vegar sá atburður að liðið féll niður í aðra deild, eftir 22 ára samfellda dvöl í fyrstu deild. Í liðinu voru nokkrir af verðandi lykilmönnum næsta gullaldarliðs Skagamanna að stíga sín fyrstu skref.
Liðið var ekki lengi að koma sér á ný í fyrstu deild, en það vann aðra deildina í fyrstu atrennu árið 1991. Liðið sem fór upp þetta árið innihélt Júgóslavann, Luka Kostic, en menn frá því landi áttu eftir að setja sinn stimpil á félagið næstu árin. Luka Kostic hafði komið til liðs við Skagamenn fyrir tímabilið 1991, en hann hafði spilað með Þór Akureyri árin 1989 og 1990, ásamt því að þjálfa liðið síðara árið
Það var strax augljóst að Þórsarar höfðu þar fengið gríðarlega góðan liðsstyrk, en Luka hafði áður verið atvinnumaður í Júgóslavíu þar sem hann spilaði með liðinu Osijek, sem hafði m.a. Davor Suker innanborðs.
Það kom bersýnilega í ljós strax á fyrsta tímabili Luka að hann styrkti lið Þórsara til muna, en þeir héldu sér uppi í fyrstu deild þrátt fyrir að þeim hafi ekki verið spáð góðum árangri fyrir tímabilið. Víðir Sigurðsson ræðir þetta í bók sinni, Íslensk knattspyrna 1989:
Einum manni geta Þórsarar þakkað þennan árangur öðrum fremur, hinum þrítuga Luca Kostic. Hann bar höfuð og herðar yfir flesta aðra leikmenn í 1.deildinni, var óhemju sterkur í vörn Þórsara og stjórnaði leik þeirra af mikilli festu.
Það ætti því að hafa verið Skagamönnum ljóst að þeir væru að fá til sín mjög sterkan leikmann þegar Luka skrifaði undir. Árangurinn lét ekki bíða eftir sér, en strax á fyrsta ári Luka með liðinu tryggðu Skagamenn sér sigur í annarri deild nokkuð sannfærandi.
Það var ekki aðeins komu Luka Kostic að þakka að Skagamenn klifruðu upp í efstu deild að nýju, heldur var liðið að miklu leyti byggt upp af ungum og mjög efnilegum leikmönnum. Innan hópsins voru menn sem áttu eftir að vera lykilleikmenn Skagamanna í fjölda ára, aðrir fóru út fyrir landsteinana í atvinnumennsku og margir spiluðu landsleiki fyrir Íslands hönd. Áhrif Luka voru þó augljós og er Gunnar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar ÍA á þessum tíma, alveg viss um hvað Luka gerði fyrir knattspyrnuna á Akranesi:
„Ég held að sérstaklega koma Luka, og einnig Zoran Mijlkovic, gerði okkur að meiri atvinnumönnum, eða kom með meiri aga í æfingar og leiki og hjálpaði okkur við það að fá svona sterkari blæ yfir þetta. Þetta voru menn sem höfðu spilað sem atvinnumenn og þekktu það og skildu vel muninn á að vinna og tapa."
Skagamenn mættu því fullir sjálfstrausts til leiks sumarið 1992 eftir góðan sigur í annarri deild sumarið áður. Það kom þó mörgum á óvart að Skagamönnum væri spáð öðru sæti strax á fyrsta ári eftir endurkomu í fyrstu deild, en það voru fyrirliðar, þjálfarar og formenn fyrstudeildarfélaganna sem tóku þátt í henni. Morgunblaðið ver þessa spá sína með orðunum: ,,Liðið er skipað góðum leikmönnum; góðri blöndu ungra stráka með reynslumikla leikmenn inn á milli.”
Luka Kostic var svo sannarlega í hópi hinna reynslumiklu leikmanna. Þessi spá rættist þó ekki heldur gekk liðinu enn betur. Svo fór nefnilega að Skagamenn urðu Íslandsmeistarar, en með því braut liðið blað í íslenskri knattspyrnusögu, varð fyrsta félagið til að vinna sigur í fyrstu deild eftir að hafa árinu áður unnið aðra deild.
Luka sjálfur spilaði alla 18 leiki liðsins í deildinni og var eins og Víðir Sigurðsson orðar það í bókinni Íslenskri knattspyrnu 1992 ,,ómetanlegur í vörninni og við hlið hans kom Ólafur Adolfsson mjög á óvart á sínu fyrsta ári í fyrstu deild.“
Næsta tímabil var án efa eitt besta tímabil Skagamanna fyrr og síðar. Liðið vann fyrstu deildina örugglega, Skagamenn voru orðnir meistarar þegar tveir leikir voru enn eftir og unnu á endanum með níu stiga forskoti á næsta lið. Sigur vannst einnig í bikarnum, þar sem Skagamenn unnu Keflvíkinga 2-1 ásamt afar góðum árangri í Evrópukeppninni þar sem liðið skellti hinu hollenska stórveldi Feyenoord 1-0 á Laugardalsvelli.
Það má því með sanni segja að Luka Kostic hafi hætt á toppnum með Skagamönnum þegar hann ákvað í lok tímabils að taka við þjálfun Grindvíkinga, en þeir voru þá í annarri deild.
Sparkspekingar voru sammála því að mikil eftirsjá yrði af Luka í fyrstu deild, sem sést kannski best í orðum Víðis Sigurðssonar:
Lúka Kostic, sem kom til Íslands 1989 sem Júgóslavi en leggur nú skóna á hilluna sem íslenskur ríkisborgari og snýr sér að þjálfun, hefur á þessum skamma tíma áunnið sér miklar vinsældir og virðingu – bæði fyrir hæfni sína og forystuhæfileika, og einstaka prúðmennsku sem er öllum til eftirbreytni.
Luka Kostic hafði mikil áhrif á Skaganum, jafnt sem leikmaður, persóna og þjálfari, en ásamt því að spila fyrir liðið þá tók hann að sér ýmsa þjálfun í yngri flokka starfi ÍA. Þetta voru vissulega viðbrigði fyrir liðið að fá atvinnumann á því kaliberi sem Luka var inn í hópinn. Hann bætti miklu við hópinn og lýsir Ólafur Adolfsson, samherji Luka í vörninni öll ár hans uppi á Skaga, þeim breytingum sem urðu við komu hans:
„Hann innleiddi annan hugsunarhátt inn í hópinn. Hann var mjög „professional“ í öllu því sem sneri að, ekki bara fótboltanum heldur líka öllu í kringum hann. Þá á ég bæði við hvernig þú hirðir þig og „actar“ fyrir utan boltann og líka samskipti leikmanna á milli. Það er ekki nóg með það að hann legði að mörkum til liðsins í því hvað hann var góður í fótbolta heldur gaf hann mjög mikið af sér við að kenna."
Áhrif Luka á Akranesi eru ekki einungis bundin við getu hans inni á vellinum og áhrif hans á aðra leikmenn liðsins. Fljótlega eftir komu hans hóf hann afskipti af þjálfun í yngri flokkum og kom hann með nýjar áherslur inn í starfið.
Það var því stórt skarðið sem fylla þurfti við brottför Luka til Grindavíkur, en hann fór þangað til að taka við þjálfun liðsins. Leitað var aftur til Júgóslavíu og var samið við Serbann Zoran Miljkovic eftir að hann hafði komið til móts við liðið á æfingamóti á Kýpur. Sigurganga Skagamanna hélt áfram þau ár sem Zoran spilaði með liðinu, en hann var á mála hjá liðinu árin 1994,1995 og 1996.
Logi Ólafsson þjálfaði lið Skagamanna sumarið 1995, en þá var Zoran einn af lykilmönnum liðsins:
„Hann hafði virkilega góð áhrif inn í hópinn, sérstaklega inni á vellinum, og var kannski sá sem að kom með, að mér fannst, atvinnumannahugsun inn í þetta, hvernig þú ferð inn í æfinguna. Hann var ofsalega lifandi og kannski þurftir þú aðeins að setja honum stólinn fyrir dyrnar með stjórnsemi. Hann var ofsalega mikill fagmaður í öllu sem hann gerði og sérstaklega góður stjórnandi inn á vellinum."
Ótalinn er framherji sem Skagamenn fengu fyrir tímabilið 1993, Mihajlo Bibercic, eða bara Mikki eins og hann var svo oft kallaður. Hann hafði í raun ekki sömu áhrif og Luka og Zoran, en hann var gríðarlega mikilvægur hlekkur í sigrum Skagamanna á þessum árum.
ÍA er einnig gott dæmi um það hversu mikið lottó það er að sækja erlendan leikmenn til að spila fótbolta hér á landi. Oft er erfitt að segja til um hvort leikmennirnir eigi eftir að aðlagast vel og spila þ.a.l. vel. Á árunum eftir tíma þessara þriggja leikmanna komu misgóðir leikmenn. Vladan Tomic er einn af þeim sem eru í lakari kantinum, en hann spilaði einungis tvo leiki með liðinu áður en hann var lánaður til Skallagríms þar sem hann náði aðeins að spila fjóra leiki.
Hins vegar er það ljóst að Skagamenn duttu í algjöran lukkupott þegar þeir fengu Luka, Zoran og Mikka.
Smelltu hér til að lesa ritgerðina í heild sinni
Athugasemdir