Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 05. ágúst 2022 22:17
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Stefán tryggði HK öll stigin - Spennandi lokamínútur í nágrannaslag
Lengjudeildin
Stefán Ingi gerði sigurmark HK
Stefán Ingi gerði sigurmark HK
Mynd: Twitter/valgeir29
Emil Ásmundsson skoraði sturlað mark gegn Grindavík
Emil Ásmundsson skoraði sturlað mark gegn Grindavík
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KV vann nágrannaslaginn gegn Gróttu
KV vann nágrannaslaginn gegn Gróttu
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Fjölnir gerði markalaust jafntefli við Kórdrengi
Fjölnir gerði markalaust jafntefli við Kórdrengi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjórir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í kvöld en þar vann HK 1-0 sigur á Aftureldingu á meðan KV lagði Gróttu, 2-1, í nágrannaslag á Auto Park í Vesturbæ. Fylkir vann þá góðan 5-2 sigur á Grindavík þar sem Emil Ásmundsson gerði fallegasta mark tímabilsins til þessa.

HK sótti sigur á Malbikstöðinni að Varmá, er liðið lagði Aftureldingu 1-0.

Heimamenn voru betri aðilinn í byrjun leiks en HK tókst að vinna sig betur inn í leikinn. Staðan var markalaus í hálfleik en í byrjun síðari hálfleiks gerði Stefán Ingi Sigurðarson sigurmarkið fyrir HK.

Stefán hafði átt færi stuttu áður sem Esteve Albons varði en hann klikkaði ekki í næstu sókn. HK-ingar fengu horn og eftir smá klafs tókst Stefáni að koma sér í skotfæri og lauma boltanum í netið.

Afturelding fór að sækja meira á HK-inga og sköpuðu sér nokkur góð færi. Besta færið kom á 70. mínútu. Javier Robles átti þá skot sem Arnar Freyr varði, boltinn fór aftur fyrir Arnar og virtist vera kominn yfir línuna áður en Arnar handsamaði hann. Í kjölfarið var svo dæmt rangstaða á sóknarmann heimamanna, sem þótti afar einkennilegt.

HK tókst að halda út eftir ágætis atlögu heimamanna og lokatölur 1-0. HK er á toppnum með 34 stig en Afturelding í 5. sæti með 22 stig.

Emil með mark tímabilsins í sigri á Grindavík

Fylkir vann Grindavík, 5-2, á Würth-vellinum í Árbæ. Það tók Emil Ásmundsson fimm mínútur að koma heimamönnum yfir en hann gerði það eftir undirbúning frá Unnari Steini Ingvarssyni.

Grindavík náði að snúa leiknum sér í vil. Kairo Edwards-John jafnaði sjö mínútum síðar eftir frábært einstaklingsframtak er hann lék á Orra Svein Stefánsson áður en hann kom boltanum í fjærhornið.

Benedikt Daríus Garðarsson gat komið Fylkismönnum á 17. mínútu. Hann átti skot sem var varið og náði svo frákastinu en Aron Dagur Birnuson varði aftur.

Grindvíkingar fengu vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar. Guðjón Pétur Lýðsson steig á punktinn og kom Grindavík yfir.

Fylkismenn tóku yfir leikinn í þeim síðari og allt eftir að Emil Ásmundsson skoraði fallegasta mark tímabilsins á Íslandi. Þórður Gunnar Hafþórsson átti fyrirgjöf frá hægri og inn í teiginn. Þar var Emil mættur, hoppaði upp og klippti boltann í netið. Algjörlega stórbrotið mark.

Bæði lið komu boltanum í netið á tveggja mínútna kafla en mörkin voru dæmd af vegna rangstöðu. Fylkismenn gengu síðan á lagið.

Birkir Eyþórsson skoraði með skalla eftir sendingu frá Óskari Borgþórssyni, sem hafði komið inná sem varamaður stuttu áður og þá lagði Óskar upp annað mark fyrir Benedikt Daríus nokkrum mínútum síðar.

Arnór Gauti Jónsson kórónaði svo sigur Fylkismanna er hann lét vaða af 30 metra færi, boltinn hafði viðkomu af varnarmanni og í netið. Lokatölur 5-2 fyrir Fylki sem er í 2. sæti með 33 stig, einu stigi á eftir toppliði HK. Grindavík er í 9. sæti með 17 stig.

Markalaust í Safamýri

Kórdrengir og Fjölnir gerðu markalaust jafntefli á Framvellinum í Safamýri.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill og lítið um stórhættuleg færi en síðari hálfleikurinn bauð upp á aðeins meiri skemmtun.

Fjölnismenn vildu fá vítaspyrnu á Guðmann Þórisson á 53. mínútu er Sigurpáll Melberg Pálsson átti skalla sem fór af varnarmanninum en ekkert dæmt.

Sverrir Páll Hjaltested átti skot í slá stuttu síðar en annars gerðist fátt markvert. Markalaust í Safamýri og liðin deila stigunum. Fjölnir er í 3. sæti með 24 stig en Kórdrengir í 8. sæti með 18 stig.

KV vann nágrannaslaginn

KV vann Gróttu, 2-1, á Auto Park í Vesturbænum.

Lokamínútur leiksins voru gríðarlega spennandi. Valdimar Daði Sævarsson kom KV yfir á 75. mínútu áður en Kjartan Kári Halldórsson jafnaði metin þremur mínútum síðar.

Askur Jóhannsson gerði sigurmark KV á 80. mínútu leiksins og fimm mínútum síðar fékk Valdimar Sævar að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. KV lék manni færri síðustu mínúturnar en liðið náði að halda það út.

KV er í 11. sæti með 11 stig en Grótta í 4. sæti með 22 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Fylkir 5 - 2 Grindavík
1-0 Emil Ásmundsson ('5 )
1-1 Kairo Asa Jacob Edwards-John ('12 )
1-2 Guðjón Pétur Lýðsson ('24 , víti)
2-2 Emil Ásmundsson ('51 )
3-2 Birkir Eyþórsson ('64 )
4-2 Benedikt Daríus Garðarsson ('67 )
5-2 Arnór Gauti Jónsson ('88 )
Lestu um leikinn

Afturelding 0 - 1 HK
0-1 Stefán Ingi Sigurðarson ('48 )
Lestu um leikinn

Kórdrengir 0 - 0 Fjölnir
Lestu um leikinn

KV 2 - 1 Grótta
1-0 Valdimar Daði Sævarsson ('75
1-1 Kjartan Kári Halldórsson ('78 )
2-1 Askur Jóhannsson ('80 )
Rautt spjald: Valdimar Daði Sævarsson ('85, KV )
Athugasemdir
banner
banner
banner