Framarar sóttu Breiðablik heim í Kópavoginn í kvöld í 25. umferð Bestu deildar karla. Leikurinn var hin mesta skemmtun en lauk með 3-1 sigri heimamanna. Má segja að sigur Breiðabliks hafi verið verðskuldaður en Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var allt annað en sáttur við frammistöðu sinna manna í kvöld.
„Bara ömurlegur fyrri hálfleikur og það versta sem ég hef séð frá okkur í sumar. Algjört andleysi og viljaleysi til að hlaupa og berjast og mjög ólíkt okkur. Ég var mjög sár að fara inn í hálfleikinn í stöðunni 3-1, af því að við vorum komnir inn í leikinn í stöðunni 2-1 og ég var að vonaðist til þess að fara með þá stöðu inn í hálfleik, vegna þess að við hefðum geta snúið því við í seinni hálfleik en þá gerum við bara enn ein mistökin og það skrifast bara á hugarfarið okkar í dag."
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 FH
Framarar voru ólíkir sjálfum sér í fyrri hálfleiknum en Breiðablik voru með tak á þeim allan fyrri hálfleikinn og fóru verðskuldað inn í seinni hálfleikinn með forystuna. Rúnar Kristinsson segir nokkra þætti geta spilað inn í slaka frammistöðu í fyrri hálfleik.
„Við vorum bara værukærir og kærulausir. Menn voru kannski ekki tilbúnir - það er auðvitað lítið fyrir okkur að spila um. Mér leiðist að tala um það sem einhverja afsökun og ég vil það ekki. Þetta er eitthvað sem við höfum barist fyrir og að leikmenn mínir og við leggjum okkar að mörkum að vera með í baráttunni um top 6."
Nú tekur við landsleikjahlé og enn tvær umferðir eftir. Víkingur hefur tryggt sér íslandsmeistaratitilinn og lítið að spila um fyrir Fram.
„Ég er búinn að segja mína skoðun allt of oft á þessu. Víkingar eru auðvitað búnir að vinna þetta núna, þannig að það kannski bjargar því að það eru tvær vikur í frí og tvær umferðir eftir sem skipta bara nákvæmlega engu máli, nema kannski hugsanlega fyrir Blika."
Viðtalið má nálgast í heild sinni í spilaranum að ofan.