mán 06. febrúar 2023 11:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Segist ekki hafa verið að senda Xavi skilaboð
Mynd: Getty Images
Jordi Alba átti frábæran leik þegar Barcelona lagði Sevilla 3-0 í gær. Alba tók við fyrirliðabandinu þegar Sergio Busquets fór af velli og var síógnandi allan leikinn. Barcelona er eftir sigurinn með átta stiga forskot á toppi deildarinnar.

Hinn 33 ára Alba skoraði fyrsta mark leiksins og lagði upp það þriðja fyrir Raphinha. Hann var spurður eftir leik hvort frammistaða sín hefðu verið skilaboð til Xavi sem hefur spilað Alejandro Balde í stað Alba að undanförnu.

„Ég er ekki í því að senda skilaboð. Þegar ég spila, þá reyni ég að nýta þær mínútur og þegar ég geri það ekki, þá reyni ég að leiðbeina þeim yngri hvað það þýðir að spila fyrir þetta félag," sagði Alba.

Í lok leiks fór Alba af velli og var vel fagnað af um 80 þúsund manns.

Næsti leikur Barcelona er gegn Villarreal á útivelli næsta sunnudag. Xavi lofaði mönnum fríi á æfingu eftir þessa góðu frammistöðu gegn Sevilla.

Alba hefur níu sinnum verið í byrjunarliðinu í tuttugu deildarleikjum á tímabilinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner