Harry Redknapp, fyrrum stjóri West Ham og Tottenham meðal annars, var sérstakur gestur í beinni útsendingu Sky Sports frá lokadegi enska félagaskiptagluggans í gær.
Redknapp var á sínum tíma frægur fyrir að græja mikið af 'bargain' félagaskiptum á lokametrum hvers félagaskiptaglugga. Hann var þekktur sem konungur gluggadagsins, þá sérstaklega í janúar glugganum.
Redknapp tjáði sig um það sem var í gangi í gær og er ekki sannfærður um að félagaskipti Edinson Cavani til Manchester United séu sérlega sniðug.
„Þetta er leikmaður sem er búið að bjóða hingað og þangað síðustu fjórar eða fimm vikur. Menn hafa verið að hringja út um allt í sumar að spyrja hvort einhver vilji taka Cavani og gefa honum 200 þúsund pund í vikulaun," sagði Redknapp.
„Þetta eru skrítin skipti og lykta svolítið af örvæntingu. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér, ég vona að hann standi sig vel.
„Fólk er ekki ánægt með gengi Man Utd á félagaskiptamarkaðinum og það verður að spyrja sig nokkurra spurninga. Eru þetta réttir leikmenn sem félagið er að kaupa? Eru mennirnir sem taka ákvarðanir um félagaskipti Man Utd starfi sínu vaxnir?"
Athugasemdir