Chelsea leggur aukna áherslu á að fá Mainoo - Milan vill Mitchell - Phillips gæti snúið aftur til Leeds
   fös 07. febrúar 2025 19:25
Elvar Geir Magnússon
Kosið um stærri hópa og breytingu á leikbönnum
Vestri er eitt þeirra félaga sem leggur til fjölgun varamanna í Bestu deildinni.
Vestri er eitt þeirra félaga sem leggur til fjölgun varamanna í Bestu deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá ársþingi KSÍ í fyrra.
Frá ársþingi KSÍ í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Reykjavíkurbikarinn.
Reykjavíkurbikarinn.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ársþing KSÍ verður laugardaginn 22. febrúar og nú hafa þær tillögur sem liggja fyrir þinginu verið opinberaðar.

Níu félög í efstu deild leggja fram tillögu um að í Bestu deildunum verði leyfilegt að skrá níu varamenn á skýrslu leikja en í dag eru sjö varamenn leyfilegir. Í tillögunni er þó tekið fram að aðeins verði níu varamenn leyfilegir ef a.m.k. tveir af þeim eru gjaldgengir í 2. aldursflokki.

Knattspyrnu- og þróunarnefnd KSÍ styður þessa tillögu og telur að innleiðing hennar hefði jákvæð áhrif á þróun ungra leikmanna.

Mótanefnd mótfallin tillögu Víkings
Víkingur leggur fram tillögu um breytingu á viðurlögum við agamálum á þá leið að leikmenn sem hafi ekki verið dæmdir í bann vegna uppsafnaðra áminninga fái gul spjöld felld niður fyrir úrslitakeppni Bestu deildanna eða Lengjudeildarinnar.

Mótanefnd KSÍ hefur gefið umsögn um þessa tillögu og er mótfallin henni.

„Áminningar og brottvísanir voru sett í knattspyrnulögin til að vernda leikmenn og er mikilvægt tæki dómarans við agastjórnun á leikvelli. Viðurlög um leikbönn í reglugerð eru svo mikilvægt tæki til stuðnings því markmiði. Með því að breyta viðurlögum á þennan hátt getur fjöldi leikmanna í hverju félagi leikið seinni hluta mótsins þannig að viðkomandi geti fengið áminningu í öllum 5 leikjum mótsins án þess að fara í leikbann. Þá þjóna viðurlögin um leikbönn ekki markmiðum sínum. Það getur leitt til grófari leiks. Þannig mögulega aukið meiðslahættu leikmanna og jafnframt gert starf dómarans mun erfiðara," segir í umsögninni.

Aðrar tillögur sem liggja fyrir snúa að fjölda erlendra leikmanna, siðareglum, sameiningu Reynis og Víðis og fleiru. Hér má sjá allar tillögurnar sem teknar verða fyrir á þinginu.

Stjórn KSÍ ræddi um framtíð Reykjavíkurmótsins
Þá hefur KSÍ birt fundargerð frá fundi stjórnar sambandsins frá 29. janúar en þar kemur fram að rætt hafi verið um framtíð Reykjavíkurmótsins.

Reykjavíkurmótið má svo sannarlega muna fífil sinn fegurri og virðing þess hefur minnkað mikið undanfarin ár. Félög hafa vísvitandi verið að tefla fram ólöglegum leikmönnum og ljóst að breyta þarf mótinu eða jafnvel leggja það niður í núverandi mynd.

„Stjórnarmenn ræddu framgöngu Víkings í Reykjavíkurmóti meistaraflokks karla, að tefla vísvitandi fram ólöglega skipuðu liði í þremur leikjum, og áhrif þeirrar framgöngu á heilindi og trúverðugleika mótsins. Stjórnarmenn skiptust á skoðunum um málið, ræddu þá stöðu sem mótið er komið í og um framtíð þess innan KSÍ," segir í fundargerðinni.

Mikill áhugi á starfi lögfræðings KSÍ
Í fundargerðinni kemur einnig fram að Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri sambandsins, hafi greint frá því að 61 umsókn hafi borist um starf lögfræðings á skrifstofu KSÍ. Umsóknarfrestur er liðinn og niðurstaða ætti að liggja fyrir eigi síðar en um miðjan febrúar.

Haukur Hinriksson hefur starfað sem yfirlögfræðingur KSÍ undanfarin níu ár en hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Víkings.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner