Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 07. apríl 2020 11:30
Magnús Már Einarsson
Tímavélin: Leiftursævintýrið – Hamburg spilaði á Ólafsfirði
Tímavél frá árinu 2011
Það kom fyrir að snjór var í áhorfendabrekkunni á Ólafsfirði.
Það kom fyrir að snjór var í áhorfendabrekkunni á Ólafsfirði.
Mynd: Leiftur
Lið Leifturs árið 1997.
Lið Leifturs árið 1997.
Mynd: Leiftur
Grein úr DV eftir leik Leifturs og Hamburg á Ólafsfirði árið 1997.
Grein úr DV eftir leik Leifturs og Hamburg á Ólafsfirði árið 1997.
Mynd: Timarit.is
Stuðningsmenn Leifturs í stuði fyrir bikarúrslitaleikinn árið 1998.
Stuðningsmenn Leifturs í stuði fyrir bikarúrslitaleikinn árið 1998.
Mynd: Leiftur
Grein úr Morgunblaðinu fyrir leik Leifturs og Anderlecht árið 1999.
Grein úr Morgunblaðinu fyrir leik Leifturs og Anderlecht árið 1999.
Mynd: Timarit.is
Auglýsing fyrir leik Leifturs og Luzern árið 2000.  Fyrri leikurinn á Ólafsfirði fór 2-2 en Leiftur fór síðan áfram á útivallarmörkum eftir 4-4 jafntefli í Sviss.
Auglýsing fyrir leik Leifturs og Luzern árið 2000. Fyrri leikurinn á Ólafsfirði fór 2-2 en Leiftur fór síðan áfram á útivallarmörkum eftir 4-4 jafntefli í Sviss.
Mynd: Leiftur
Þá er komið að "Tímavélinni" en þar förum við aftur í tímann og skoðum gamla leiki og gömul atvik.

Í dag skoðum við tímabilið 1995-2000 þegar að ævintýri Leifturs frá Ólafsfirði stóð sem hæst.



Leiftur frá Ólafsfirði var eitt umtalaðasta lið landsins frá 1995-2000. Liðið komst upp úr fyrstu deildinni undir stjórn Óskars Ingimundarsonar árið 1994 og í kjölfarið komu ár sem að menn á Ólafsfirði munu seint gleyma en þá spilaði liðið tólf Evrópuleiki, endaði þrívegis í þriðja sæti í efstu deild og fór í bikarúrslit. Um það bil 1100 manns bjuggu á Ólafsfirði á þessum tíma en með góðum liðsstyrk náði Leiftur að vera með eitt besta lið landsins.

„Þetta var gríðarleg stemning og þetta kom með jákvæðni í bæjarfélagið. Þetta var bara ævintýri,” segir Þorsteinn Þorvaldsson þegar hann rifjar upp þennan tíma en hann var formaður Leifturs í fimmtán ár á sínum tíma.

Við byrjum yfirreið okkar árið 1995 þegar Leiftur endaði í fimmta sæti í úrvalsdeildinni. Gunnar Oddsson kom til félagsins frá Keflavík en að öðru leyti var liðið frekar lítið breytt frá því fyrstu deildinni. Haustið 1995 fóru hjólin að snúast en Leiftur krækti þá í Auðun Helgason, Izudin Daða Dervic og Rastislav Lazorik. Liðið æfði í Reykjavík yfir veturinn á þessum árum og síðan fóru leikmenn á Ólafsfjörð yfir sumarið. Árangurinn lét ekki á sér standa eftir þennan liðsstyrk því árið 1996 náði liðið þriðja sæti og tryggði sér um leið sæti í Intertoto keppninni árið eftir. Gunnar Oddsson var sama ár valinn leikmaður ársins en hann fór í kjölfarið heim til Keflavíkur þar sem hann gerðist spilandi þjálfari.

Óskar Ingimundarson hætti sem þjálfari Leifturs fyrir tímabilið 1997 og Kristinn Björnsson tók við af honum. Leiftur hélt áfram að bæta við sig leikmönnum og Andri Marteinsson, Arnar Grétarsson, Davíð Garðarsson, Finnur Kolbeinsson, Hajrudin Cardaklija og Þorvaldur Makan Sigurbjörnsson komu til félagsins svo eitthvað sé nefnt. Á þessum árum fóru gárungarnir að kalla liðið “Leiftur-keyptur” og það nafn átti eftir að loða við liðið næstu árin þegar margar breytingar urðu á leikmannahópnum á hverju ári.

„Við vorum með öflug stuðningsmannafélög á bakvið okkur. Til dæmis Nikulás, Ketilás og Veðdeild Blíðfara. Það myndaðist mikil stemning í kringum svona félög og þeir voru drjúgir í að smala, safna og styrkja,” sagði Þorsteinn.

1700 manns mættu á leik gegn Hamburg á Ólafsfirði:
Leiftur varð annað árið í röð í þriðja sæti í efstu deild árið 1997 en þátttaka liðsins í Intertoto keppninni stóð upp úr það sumarið. Fyrsti Evrópuleikur Leifturs var spilaður á Ólafsfirði 21. júní þegar Hamburg SV frá Þyskalandi kom í heimsókn. Þjóðverjarnir hafa líklega aldrei spilað í minna bæjarfélagi og þegar verið var að sýna forráðamönnum félagsins Ólafsfjarðarvöll daginn fyrir leik sagði formaður HSV eitthvað á þessa leið: „Þetta er fínn æfingavöllur en hvar er völlurinn sem við spilum á?”

1700 manns mættu á leikinn en margir komu til Ólafsfjarðar til að sjá HSV spila. Því var fjöldinn á vellinum á þessum blíðviðrisdegi meiri en íbúafjöldi bæjarins.

„Það var búið að spyrjast út um alla Eyjafjarðarsveit að þýska stórliðið væri að koma í sveitina. Sem betur fer voru kröfur um vallaraðgengi og öryggi ekki með sama hætti og í dag og þess vegna sat fólk alls staðar í brekkum og upp í fjalli,” sagði Auðun Helgason við Fótbolta.net þegar hann var spurður út í leikinn.

„Þeir voru með hörkulið og ég man sérstaklega eftir Hasan Salihamizic sem spilaði lengi með Bayern. Hann var nýkominn til HSV þarna og spilaði ekki leikinn en hann kom og horfði á.”

Leiftur tapaði leiknum 2-1 en Rastislav Lazorik minnkaði muninn undir lokin eftir að HSV hafði komist í 2-0.

„Við spiluðum langt yfir getu og hefðum þess vegna getað spilað þrjá leiki við þá þennan dag, stemningin var þannig. Eftir leik var liði HSV síðan boðið í kaffi, kleinur og pönnukökur í klúbbhúsinu sem var nýbúið að vígja og þar var ekki búið að hengja upp gardínur, myndir eða neitt slíkt. Þetta var allt á síðustu stundu til að hægt væri að taka á móti stórveldinu.”

Viku síðar fór Leiftur til Danmörku og vann frækinn 4-3 sigur á OB. Í kjölfarið fylgdu töp gegn Kaunas frá Litháen og Samsunspor frá Tyrklandi. Leiftur endaði því í þriðja sæti í sínum riðli í Intertoto keppninni árið 1997.

80% bæjarbúa fór til Reykjavíkur á bikarúrslitin:
Árið 1998 tók Páll Guðlaugsson við þjálfun Leifturs og nokkrar breytingar urðu á leikmannahópnum. Allir leikmennirnir sem komu árið áður fóru fyrir utan Andra Marteinsson en þess í stað leitaði liðið erlendis að liðsstyrk. Jens Martin Knudsen kom í markið frá Færeyjum og landi hans Uni Arge kom í framlínuna. John Nielsen kom frá Danmörku, Peter Ogaba frá Nígeríu og Paul Kinnard kom frá Skotlandi.

Þetta árið var gengi liðsins í deildinni ekki jafngott og áður og fimmta sætið varð niðurstaðan. Leiftur tapaði einnig gegn Vorskla Poltava frá Úkraínu í Intertoto keppninni. Liðið vann fyrir leikinn 1-0 en eftir leik kom í ljós að Sindri Bjarnason var ekki skráður á leikskýrslu og þess vegna tapaði Leiftur leiknum 3-0. Ólafsfirðingar munu þó alltaf muna eftir árinu 1998 því þá fór liðið í fyrsta sinn í bikarúrslit. Leiftur mætti ÍBV í úrslitunum og tapaði 2-0 eftir að hafa verið manni færri frá 35. mínútu eftir að Páll Guðmundsson fékk rauða spjaldið fyrir að verja með hendi á marklínu. Þegar leikurinn fór fram á Laugardalsvelli í lok ágúst var nánast engin heima á Ólafsfirði.

„Það var mjög gaman að fara í bikarúrslitin og 80% bæjarbúa fóru suður á leikinn. Það var rosaleg stemning í kringum þetta,” segir Þorsteinn þegar hann rifjar leikinn upp.

Stórt tap gegn Anderlecht:
Páll hélt áfram að þjálfa Leiftur ári síðar og fleiri erlendir leikmenn bættust í hópinn. Alls komu tíu erlendir leikmenn við sögu hjá Leiftri sumarið 1999 og sex þeirra áttu fast sæti í byrjunarliðinu. Uni Arge var áfram frammi og við hlið hans lék Alexandre Santos frá Brasilíu en þeir skoruðu báðir átta mörk þegar Leiftur náði þriðja sætinu í Landsímadeildinni. Tveir aðrir Brasilíumenn léku einnig með Leiftursmönnum sem mættu belgíska stórliðinu Anderlecht í UEFA bikarnum.

Skemmst er frá því að segja að Leiftur tapaði 6-1 í Belgíu fyrir framan 20.500 áhorfendur. Tomasz Radzinski og Jan Köller voru í fremstu víglínu Anderlecht á þessum tíma og þeir fóru illa með lið Leifturs þó að sigur Belgana hafi verið full stór miðað við gang leiksins.

„Ég á þennan leik á myndbandi og við vorum óheppnir að tapa svona stórt. Ég hef oft spilað með færeyska landsliðinu þar sem hefur verið meiri pressa en þetta en við höfum tapað minna,” sagði Jens Martin Knudsen við Fótbolta.net en hann stóð á milli stanganna hjá Leiftri í leiknum.

UEFA leyfði Leiftri ekki að spila síðari leikinn á heimavelli sínum þar sem áhorfendaaðstaðan var ekki fullnægjandi og því tók liðið á móti Anderlecht á Akureyrarvelli þar sem lokatölur urðu 3-0.

Árið 2000 lauk síðan “ævintýrinu” hjá Leiftri þegar liðið endaði í neðsta sæti í Landsímadeildinni. Jens Martin Knudsen var spilandi þjálfari hjá liðinu það sumarið og þrír aðrir Færeyingar komu við sögu. Brasilíumennirinr þrír voru áfram á sínum stað en þrátt fyrir það var spilamennskan ekki jafngóð og árið áður.

„Við fengum marga Færeyinga og þeir voru ekki alveg eins sterkir og við áttum von á. Við vorum líka að spara og ég held að við höfum ekki verið með nægilega sterkt lið,” segir Þorsteinn um árið 2000.

Engar skuldir í dag:
Leiftursmenn eiga þó ekki bara slæmar minningar frá þessu ári því liðið komst í aðra umferð UEFA bikarsins eftir að hafa slegið Luzern frá Sviss út á ævintýralegan hátt. Eftir 2-2 á Ólafsfirði komst Leiftur áfram á útivallarmörkum eftir 4-4 jafntefli í Sviss þar sem Örlygur Þór Helgason skoraði jöfnunarmarkið á 90. mínútu. Í næstu umferð mætti Leiftur síðan Sedan frá Frakklandi en það var of stór biti fyrir Ólafsfirðinga. Heilt yfir eiga Ólafsfirðingar þó góðar minningar úr Evrópukeppnunum.

„Við spiluðum einhverja tólf Evrópuleiki og það segir ýmislegt. Ég held að sveitarfélag eins og Akureyri sem telur 20 þúsund manns hafi spilað einn Evrópuleik samanlagt,” segir Þorsteinn.

Eftir fallið lék Leiftur eitt ár í fyrstu deild áður en liðið sameinaðist Dalvík og síðar KS en þau félög leika í dag undir nafninu KF (Knattspyrnufélag Fjallabyggðar). Eftir “ævintýrið í efstu deild” skuldaði Leiftur þónokkuð margar milljónir en félagið náði á endanum að semja við skuldunauta sína.

„Þó að peningahliðin hafi alltaf verið þyngri og þyngri þá urðum við ekki gjaldþrota og í dag er okkar rekstur á núlli, við erum með engar skuldir í dag,” sagði Þorstein í viðtalinu við Fótbolta.net árið 2011 en hann sagðist þá ekki búast við að Leiftur nái aftur sömu hæðum í nánustu framtíð.

„Ég sé það varla gerast. Menn eru kannski jarðbundnari þannig lagað. Okkar draumur er að fara í fyrstu deild. Það er fyrsta takmarkið hjá okkur. Við erum að byggja mikið á heimamönnum í dag sem er samblanda af Siglfirðingum og Ólafsfirðingum. Ég sé þetta ekki gerast aftur.”

Sjá einnig:
Jens Martin Knudsen: Var ekki alltaf með húfu á Íslandi



Ef lesendur hafa ábendingar um áhugavert efni í "Tímavélina" má senda tölvupóst á [email protected]

Sjá einnig:
Eldra efni í Tímavélinni
banner
banner
banner